Fyrirvarar hafa enga þýðingu

Tryggvi Þór Herbertsson.
Tryggvi Þór Herbertsson. Mbl.is/ Kristinn

Ef enginn hagvöxtur verður á fyrirhuguðu uppgreiðslutímabili fyrir Icesave, nánar tiltekið á árunum 2016-2024, munu vaxtagreiðslur á tímabilinu nema 120 milljörðum króna en höfuðstóllinn, um 350 milljarðar, verða sá sami þegar tímabilinu lýkur, að sögn Tryggva Þórs Herbertssonar.

Tryggvi, sem er þingmaður Sjálfstæðisflokksins, beindi orðum sínum að Steingrími J. Sigfússyni fjármálaherra en hann sagði að með þeim breytingum sem gerðar hefðu verið á nýundirrituðu Icesave-samkomulagi hefðu títtnefndir fyrirvarar við það enga þýðingu.

Í versta falli kunni fyrirvararnir að vinna gegn efnahagslegri velsæld þjóðarinnar.

Steingrímur svaraði því þá til að góðar líkur væru á að hagvöxtur verði nægur til að standa undir Icesave-kröfunum.

Tryggvi svaraði því þá til að ef það yrði ekki góður hagvöxtur á greiðslutímabilinu væri verið að taka stórkostlega áhættu. Með samkomulaginu væri ríkisstjórnin að leika sama leik og íslenskst fjármálalíf fyrir hrunið með alkunnum árangri með því að taka mikla fjárhagslega áhættu.

Steingrímur minnti þá á að Brussel-viðmiðin svokölluðu hefðu verið færð inn í viðaukasamning samkomulagsins, þar sem m.a. sé kveðið á um það að Íslandi sé ætlað að geta staðið undir eigin endurreisn. Það sé markmiðið með þessu öllu saman.

Þá væru nærtækari hlutir í tíma meiri ógn við ísland en samkomulagið sem kæmi til framkvæmda 2016-2024.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert