Fréttaskýring: Kjaradeila lögreglumanna og ríkis í járnum

Lögreglan stendur heiðursvörð við Alþingishúsið.
Lögreglan stendur heiðursvörð við Alþingishúsið. mbl.is/Ómar


Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, segir ekkert að gerast í kjaraviðræðunum. „Ríkisvaldið hefur ekkert að bjóða annað en það sem var fellt,“ segir hann. Snorri segir stöðuna grafalvarlega þegar litið er til hlutverks löggæslunnar í landinu að lögreglumenn séu án kjarasamnings.

Lögreglumenn kolfelldu kjarasamning við ríkið um miðjan ágúst, þar sem yfir 90% sögðu nei í atkvæðagreiðslu. Í framhaldi af því komust samningnaefndinar að þeirri niðurstöðu að réttast væri að vísa kjaradeilunni til ríkissáttasemjara.

Sá mikli samdráttur sem löggæslan hefur mátt sæta og fyrirhugaðar skipulagsbreytingar á löggæslunni í landinu eru mál málanna. Ekki er búist við að neitt samkomulag náist í kjaradeilunni fyrr en sér fyrir endann á þeirri vinnu, en það ætti þó að geta orðið fljótlega, skv. upplýsingum blaðsins.

Ragna Árnadóttir, dóms- og mannréttindamálaráðherra skipaði vinnuhópinn og var ráðgert að hann skoðaði fýsileika þess að allt lögreglulið verði undir einni yfirstjórn. Gert er ráð fyrir að fyrir aðra umræðu fjárlaga muni ráðherra leggja fram tillögur um breytingar sem verða gerðar í áföngum.

Á borðinu að lögreglustjórar verði 6 auk ríkislögreglustjóra

Snorri bendir á að horfið hafi verið frá hugmyndinni um einn lögreglustjóra yfir landið allt og ákveðið að fara þá leið sem Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, var lagður af stað með, „að lögreglustjórar verði sex og til viðbótar þeim eru svo ríkislögreglustjóri og skólastjóri Lögreglustjóra ríkisins. Þetta eru þær hugmyndir sem eru á borðinu,“ segir Snorri.

Í fjáraukalagafrumvarpinu sem lagt var fram á Alþingi á dögunum er lagt til að lögregluembætti landsins þurfi að skera niður 139,5 milljónir kr. á þessu ári til viðbótar þeim niðurskurði sem ákveðinn var á fyrri hluta ársins. Landssamband lögreglumanna hefur tekið saman hvernig viðbótarniðurskurðurinn blasir við einstökum embættum. Hafa ber þó í huga að frumvarpið gæti átt eftir að taka meðförum á Alþingi og útfærsla sparnaðarins geti orðið með misjöfnum hætti á milli embætta.

57 millj. viðbótarniðurskurður á höfuðborgarsvæðinu

Hæsta fjárhæðin sem skorin er niður er hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eða samtals 57,1 milljón. Ríkislögreglustjóri þarf að spara 23,6 millj. kr. Sýslumaðurinn á Akureyri 9 milljónir, Sýslumaðurinn á Ísafirði 5,9 millj. kr. og önnur embætti minna.

„Það er alls ekki auðvelt fyrir þessi minni lið út á landi að ná þessum markmiðum. Þau eru missett fjárhagslega eins og gefur að skilja og mismikið störfum hlaðin. Niðurskurðurinn kemur misjafnlega við þau en kannski einna verst hér á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Snorri.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert