Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt fyrirtæki til að greiða öðru fyrirtæki 214 þúsund krónur auk vaxta og dráttarvaxta fyrir afnot að ferðasalernum við Fljótsdalsstöð Kárahnjúkavirkjunar á meðan framkvæmdir stóðu þar enn yfir fyrri hluta ársins 2007.
Fram kemur í dómnum, að til ársloka 2006 hafi Fosskraft veitt allmörgum verktökum við Fljótsdalsstöð þjónustu, sem laut að salernisaðstöðu á svæðinu. Undir lok ársins sendi Fosskraft öllum verktökum tilkynningu þess efnis að fyrirtækið hygðist hætta þjónustunni og að salernisaðstaðan yrði fjarlægð um áramótin.
Stálsmiðjan, sem einnig var þarna með starfsemi, hafi talið óviðunandi að þjónustan legðist niður og hafi ákveðið að kaupa salernisaðstöðuna af Fosskraft. Segist Stálsmiðjan m.a. hafa gert samkomulag við starfsmann fyrirtækisins Orkuvirkis-Austurafls, um afnot af salernisaðstöðunni gegn greiðslu.
Í ágúst 2007 var salernisaðstaðan fjarlægð að kröfu Landsvirkjunar sem þurfti á því svæði að halda þar sem aðstaðan var á. Stálsmiðjan hafi þá strax sett upp í staðinn nokkur ferðaklósett eða kamra sem Orkuvirki-Austurafl hafi áfram haft óheftan aðgang að.
Síðarnefnda fyrirtækið neitaði síðan að greiða reikning, sem Stálsmiðjan sendi vegna salernisaðstöðunnar og taldi ekki að neinn samningur hefði verið gerður. Að auki hefðu ferðaklósettin verið læst.
Héraðsdómur féllst á kröfur Stálsmiðjunnar og taldi að Orkuvirki-Austurafl hefði hvorki sýnt fram á að samningurinn hefði ekki verið gerður né að greiðslan fyrir þjónustuna hefði verið ósanngjörn.