Krafist efnda þjónustusamnings

SÁÁ.
SÁÁ. Valdís Þórðardóttir

Lögmaður Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann (SÁÁ) hefur sent heilbrigðisráðherra bréf þar sem þess er krafist að íslensk stjórnvöld standi við gerðan þjónustusamning og greiði SÁÁ það sem upp á vantar fullar efndir á þessu ári. Jafnframt að staðfest verði að staðið verði við samninginn til loka samningstímans, nema samið verði um annað.

„Heilbrigðisráðherra lækkaði framlögin einhliða og án samráðs við SÁÁ. Hann tilkynnti samningsaðila ekki um lækkunina og hefur ekki gert honum grein fyrir því með hvaða lagaheimild hann telji sig geta vanefnt samninginn að þessu leyti. Umbj. m. telur heilbrigðisráðherra ekki hafa neina heimild að lögum eða samkvæmt samningi til að breyta þjónustusamningi aðila einhliða á þann hátt sem lýst er að framan,“ segir í bréfi Ragnars Aðalsteinssonar lögmanns.

Umsamin framlög á árinu 2009 lækkuðu um 3,4% og boðuð hefur verið 6-7% lækkun á næsta ári.

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, hefur m.a. sagt að til að ná fyrirhuguðum sparnaði, sem þarf að vera um 100 milljónir króna, er ekki nóg að minnka umsvifin almennt heldur verði að leggja niður meðferðardeildir á Vogi eða meðferðarþætti.

„Flatur niðurskurður sem bitnar á Vogi er ósanngjarn þar sem SÁÁ hefur þegar sparað og tekur verulega þátt í að minnka kostnað ríkisins. Flatur niðurskurður er líka óviturlegu þegar hann minkar þjónustu sem sannanlega mun auka kostnað miklu meira en sparast á öðrum sjúkrahúsum. Það er að öllum líkindum ólöglegt að rifta þjónustusamningum einhliða til að ná fram flötum niðurskurði,“ segir í pistli Þórarins á vefsvæði SÁÁ.

Bréfið í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert