Framkvæmdastjóri verktakafyrirtækisins Fonsi sakar framsóknarmenn um pólitíska spillingu tengslum við útboð á framkvæmdum í miðbæ Reykjavíkur. Hann hefur sett sig í samband við lögfræðing Samtaka Iðnaðarins og íhugar að kæra málið. Greint var frá málinu í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Þar kom fram að málið snúist um uppbyggingu á brunareitnum svokallaða á horni Lækjargötu og Austurstrætis. Verkið var boðið út í síðasta mánuði og átti verktakafyrirtækið Fonsi lægsta tilboðið,en Eykt sem átti næst lægsta tilboðið fékk verkið.
Tilboð Fonsa hljóðaði upp á tæpar 138 milljónir en Eykt bauð rúmar 143 milljónir króna í verkið. Fram kemur í fréttinni að tilboði Fonsa hafi verið hafnað þar sem fyrirtækið hafi ekki þótt uppfylla öll skilyrði útboðsins.
Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2008 var eiginfjár staða ekki yfir skilyrtu lágmarki útboðsins. Félagið er þó yfir lágmarkinu samkvæmt árshlutareikningi fyrir núgildandi ár. Þá sé einnig um það deilt hvort félagið hafi reynslu af jafn stórum framkvæmdum og hér um ræðir.
Í frétt Stöðvar 2 sagði framkvæmdastjóri Fonsa augljóst að útboðið hafi verið fyrirfram ákveðið og ljóst að Eykt átti að fá verkefnið. Vísaði hann m.a. til þess að Eykt hefði borgað í kosningasjóð Framsóknarmanna á sínum tíma.
Haft var eftir Halli Magnússyni, formaður innkauparáðs Reykjavíkurborgar og fulltrúa framsóknarmanna í ráðinu, að ekki hafi verið hægt að fallast á tilboð Fonsa þar sem félagið hafi ekki uppfyllt öll skilyrði. Þannig hafi ekki verið hægt að taka árshlutareikning félagsins gildan þar sem hann hefur ekki skattalegt gildi. Vísaði hann öllum ásökunum um spillingu á bug.