Sakar Steingrím um kúvendingu

Bjarni Benediktsson sakaði fjármálaráðherra um kúvendingu í Icesave-málinu.
Bjarni Benediktsson sakaði fjármálaráðherra um kúvendingu í Icesave-málinu. Árni Sæberg

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sakaði Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra um kúvendingu í Icesave-málinu með þeim samningi sem nú liggur fyrir í fyrirspurn á Alþingi fyrir stundu. Steingrímur vísar þessu á bug og segir Alþingi enn hafa tækifæri til að leita réttar síns.

Með þeirri niðurstöðu í Icesave-málinu sem kynnt var í hag hefði Alþingi verið að gefa frá sér rétt til að takmarka ríkisábyrgð vegna Icesave síðar meir, öndvert við anda fyrirvaranna sem settir voru við samkomulagið í sumar.

„Hvað réttlætir þessa kúvendingu,“ spurði Bjarni og beindi orðum sínum til fjármálaráðherra.

Steingrímur svaraði því til að hann væri ósammála þessari túlkun flokksformannsins. Sá lagalegi fyrirvari að Ísland hafi ekki viðurkennt fyrirfram að greiðsluskyldan væri ótvíræð í málinu héldi.

Þvert á þessa túlkun Bjarna væri staða hins lagalega áskilnaðar, eins og Steingrímur orðaði það, sterkari en áður.

Bjarni spurði þá hvers vegna stjórnin hefði skrifað undir samkomulagið þannig að íslensk stjórnvöld verði að una niðurstöðu í mögulegu dómsmáli vegna greiðsluskyldunnar, ef til þess kæmi síðar.

Möguleikinn á að taka málið upp í dómstólum væri einskis virði ef það hefði engar aðrar afleiðingar en þær að ræða málin yfir „tebolla“.

Steingrímur svaraði því þá til að Alþingi hefði löggjafarvald og möguleika til aðgerða - ekkert framsal hefði farið fram í þeim efnum.

Þá benti hann Bjarna á að Alþingi væri ekki í þeirri stöðu að geta útkljáð þetta mál einhliða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert