„Við erum ræða þau mál sem út af hafa staðið en ég get ekki sagt að það hafi miðað neitt vel," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um framhald viðræðna um stöðugleikasáttmála ríkis, verkalýðsfélaga og fulltrúa atvinnulífsins.
„Við sjáum það kannski á morgun [í dag] hvort það verða einhverjar breytingar varðandi þessa málaflokka eins og ríkisfjármálin, gjaldeyrishöftin og vextina en framkvæmdamálin eru alveg stopp.“
– Ertu vongóður um framhaldið?
„Eins og þetta horfir við í dag er það algjörlega raunhæfur möguleiki að samningarnir detti í sundur og verði ekki framlengdir."
– Hvenær gæti það gerst?
„Fresturinn sem við höfum rennur út á þriðjudaginn í næstu viku."
Framkvæmdafundi frestað
Til stóð að ræða fyrirhugaðar framkvæmdir hins opinbera, sem ætlað er að vega á móti niðursveiflunni og slá á atvinnuleysi, en þeim fundi var frestað, að sögn Vilhjálms, sem telur málin þokast alltof hægt hjá ríkinu.
„Við vorum m.a. búin að ræða við Seðlabankann og fulltrúa viðskipta- og efnahagsráðuneytisins. Á fundi á föstudaginn lagði ráðuneytið fram minnisblað um stöðu mála sem var hvorki fugl né fiskur, að okkar mati. Þannig stendur það. Nú er spurningin hvort lendingin í Icesave hafi hreyft við málum og hvort ríkisstjórninni hafi vaxið kjarkur í því að afnema gjaldeyrishöftin og lækka vextina í gegnum Seðlabankann.
– Ertu bjartsýnn á að það gerist?
„Það er að minnsta kosti nógu oft búið að segja að Icesave hafi verið fyrirstaðan fyrir því að þessi skref yrðu stigin. Það hefur aldrei verið hægt að hreyfa sig vegna Icesave. Nú er spurningin hvort það koma fram nýjar mótbárur eða hvort menn fara í þetta mál. Okkar afstaða til gjaldeyrishaftanna er skýr. Það hefði aldrei átt að setja þau á."
Skattamálin verða skoðuð
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, tekur undir það að sáttmálinn sé í uppnámi.
„Það sem hefur staðið út af eru í fyrsta lagi skattamálin, umfang skattheimtu á næsta ári. Þá er það framkvæmdahliðin, en verklegar framkvæmdir eru í uppnámi, sérstaklega vegna inngripa umhverfisráðherra gagnvart suðvesturlínu.
Síðan er ágreiningur um vexti og gjaldeyrishöft en frágangur Icesave-málsins hjálpar mikið til með það," segir Gylfi, sem óttast að auknar álögur muni draga úr neyslu og þar með úr atvinnuframboði síðar meir.
„Ég ætla ekki að taka ákvörðun fyrr en eftir viku. Þetta er þungt, mjög þungt. Ársfundur Alþýðusambandsins verður settur á fimmtudaginn. Ég hefði gjarnan viljað hafa eitthvert yfirlit yfir stöðuna þannig að ég geti borið mig saman við félagana um hvað sé framundan. Þess vegna er kannski enn styttra í þetta heldur en dagsetningar segja.“
- Ertu að segja að sáttmálanum verði hafnað fyrir helgi?
„Nei. Við höfum lagt áherslu á það í samskiptum okkar við ríkisstjórnina að fá skýrari svör þannig að við getum á fimmtudag, föstudag áttað okkur á því í hvaða átt þetta mál hafi þróast.“