Heildarútgjöld hins opinbera til almannatrygginga og velferðarmála hafa vaxið verulega síðasta aldarfjórðung eða úr tæplega 5,7% af landsframleiðslu árið 1980 í ríflega 8,9% af landsframleiðslu 2008, en það samsvarar 132 milljörðum króna á því ári.
Þetta kemur fram í nýju riti Hagstofunnar. Velferðarútgjöldin hafa ríflega þrefaldast að magni á tímabilinu miðað við verðvísitölu samneyslu og ríflega tvöfaldast á mann.
Árið 2008 runnu 413 þúsund krónur til þessa málaflokks á mann samanborið við 181 þúsund krónur í byrjun níunda áratugarins á verðlagi 2008.
Útgjöld til fjölskyldna og barna er umfangsmesti útgjaldaliðurinn, en til þess málaflokks runnu rúmlega 37,6 milljarðar króna 2008, eða 2,5% af landsframleiðslu. Útgjöld vegna örorku og fötlunar námu 34,9 milljörðum króna og hækkuðu um 6,6 milljarða króna milli ára. Þá námu útgjöld vegna öldrunar 33,1 milljarði króna og hækkuðu um 4 milljarða króna milli ára. Framlög vegna atvinnuleysis voru 5,4 milljarðar króna 2008 og hækkuðu um 2,3 milljarða króna frá fyrra ári.
Í riti Hagstofunnar er einnig gerð grein fyrir útgjöldum til almennrar félagsverndar hér á landi samkvæmt svonefndu ESSPROS flokkunarkerfi Sameinuðu þjóðanna, en það nær til afskipta opinberra aðila og einkaaðila af félagsvernd.
Útgjöld til félagsverndar árið 2008 námu 325,6 milljörðum króna eða 22,1% af landsframleiðslu. Um 40% útgjaldanna 2008 voru vegna slysa og veikinda (heilbrigðismála), en það samsvarar ríflega 8,8% af landsframleiðslu. Til verkefna vegna öldrunar fóru rúmlega 22% útgjaldanna eða 4,9% af landsframleiðslu. Þá vógu útgjöld vegna örorku og fötlunar og sömuleiðis fjölskyldna og barna þungt, en ríflega 13% útgjalda til félagsverndar runnu til hvors verkefnasviðs eða 2,9% af landsframleiðslu.
Samanburður á félagsvernd milli Norðurlanda og ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu sýna að árið 2006 ráðstöfuðu Svíar til dæmis 30,7% af landsframleiðslu sinni til félagsverndar og Danir 29%, Norðmenn 22,6%, Færeyingar 24% og Finnar 26,3%. Á því ári rann 21% landsframleiðslu hér á landi til félagsverndar eða 247 milljarðar króna. Á Evrópska efnahagsvæðinu runnu að meðaltali 26,9% af landsframleiðslu ríkja þess til félagsverndar árið 2006.