Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar (ÆSKÞ) fagnar og styður ákvörðun biskups. Þetta kemur fram í ályktun sem stjórn ÆSKÞ hefur sent frá sér um mál sr. Gunnars Björnssonar.
Þar segir m.a.: „Okkur þykir ljóst að sr. Gunnar Björnsson hafi brugðist trausti ungmenna og sóknarbarna sinna og sýnt alvarleg afglöp í starfi sínu og teljum að hann eigi ekki að snúa aftur til starfa.
Stjórn ÆSKÞ fagnar þeirri ákvörðun hr. Karls Sigurbjörnssonar að sr. Gunnar skuli ekki snúa aftur til starfa við Selfosskirkju. Ákvörðun hr. Karls sýnir í verki það sem Biskup Íslands hefur ítrekað orðað í ræðu og riti að æska landsins skiptir kirkjuna höfuðmáli. ÆSKÞ stendur heilshugar með ákvörðuninni og telur stjórnin hana nauðsynlega til að standa vörð um börn æskulýðsstarfi Þjóðkirkjunnar.“ Í sömu ályktun stjórnarinnar eru störf siðanefndar Prestafélags Íslands hins vegar gagnrýnd.
Forsaga málsins er sú að í apríl sl. sendi ÆSKÞ erindi til siðanefndar Prestafélags Íslands (PÍ) þar sem sambandið óskaði eftir því að nefndin fjallaði um mál sr. Gunnar Björnssonar í ljósi þeirrar kröfu sambandsins að hann snéri ekki til starfa við söfnuðinn á ný.
Siðanefndin komst að því að hegðun sr. Gunnars hefði brotið í bága við siðareglur PÍ. Með tilvísan í dómskjöl taldi nefndin að hátterni sr. Gunnars hafi brjótið „í bága við siðareglur PÍ þar sem presturinn er sálusorgari skjólstæðinga sinna en ekki öfugt“ og að hátterni hans gagnvart stúlkunum „ekki síst í ljósi aldurs þeirra og stöðu, er því að mati siðanefndar presti ekki sæmandi.„
Stjórn ÆSKÞ fagnar, í bréfi sínu, úrskurði siðanefndar þar sem tekið sé undir sjónarmið ÆSKÞ og afdráttarlaus afstaða sé tekin til þess að um siðferðisbrot hafi verið að ræða. Hins vegar harmar stjórnin að siðanefnd hafi ekki skilgreint alvarleika brotsins eins og henni ber samkvæmt siðareglum PÍ.
Samkvæmt upplýsingum frá stjórn ÆSKÞ hafa samtökin þegar sent siðanefndinni svar þar sem óskað sé eftir því að hún taki afstöðu til alvarleika málsins með þeim viðurlögum sem þegar hafa verið tilgreind.
„Það er Æskulýðssambandinu mikið hagsmunamál að sr. Gunnari verði ekki gert kleyft að snúa aftur til starfa og snertir það bæði æskulýðsstarf Selfosskirkju og vegur að öllu æskulýðsstarfi inna íslensku Þjóðkirkjunnar. Æskulýðsstarf Selfosskirkju er formlegur aðili að ÆSKÞ og hefur mál sr. Gunnars haft víðtækar afleiðingar fyrir starf safnaðarins.
Sóknarnefnd Selfosskirkju hefur m.a. lýst aðstöðu sinni og áhyggjum af klofningi í
söfnuðinum og þeim skaða sem orðið hefur á „því þróttmikla barna- og unglingastarfi sem upp hefði verið byggt á undanförnum áratugum.“ Eitt af meginhlutverkum ÆSKÞ er að stuðla að öryggi barna og unglinga í æskulýðsstarfi og hefur sambandið með ýmsu móti unnið að því tryggja öryggi skjólstæðinga sinna. Þá vinnur sambandið eftir Siðareglum fyrir starfsfólk í kristilegu æskulýðsstarfi sem allt kristilegt æskulýðsstarf Þjóðkirkjunnar starfar eftir.
Æskulýðsstarfsfólk kirkjunnar þarf að geta treyst því að starfsvettvangur þeirra bjóði börnum og unglingum öruggt og heilbrigt umhverfi þar sem allir sitja við sama borð. Nauðsynlegt er að brugðist sé við í þessu og sambærilegum málum sem komið geta upp svo að ekki myndist óvissa um öryggi ungmenna,“ segir m.a. í ályktun stjórnarinnar.