Ákærður fyrir að stjórna skipi ölvaður

Reykjavíkurhöfn.
Reykjavíkurhöfn. mbl.is/RAX

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað skipstjóra á skuttogara af ákæru fyrir að hafa verið ölvaður við stjórn skipsins. Í ljós kom að 1. stýrimaður hafði stýrt skipinu að bryggju.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk í janúar sl. tilkynningu frá Landhelgisgæslunni um að skipstjóri væri hugsanlega ölvaður við stjórn togarans, sem þá var á leið frá Bremerhaven til Reykjavíkur. Fram kom í málinu, að Stjórnstöð Landshelgisgæslunnar fékk símhringingu þar sem sagt var að skipstjórinn væri hugsanlega drukkinn við stjórn skipsins.

Upphaflega var þyrla send til móts við skipið með lögreglumenn en hún þurfti tvisvar að hverfa frá því vegna veðurs.  Þegar skipið lagðist að bryggju fóru lögreglumenn um borð og ræddu við skipstjórann.  Hann sagðist hafa verið á vakt frá klukkan 20:30 kvöldið áður og til klukkan hálf eitt um nóttina, en þá hefði 1. stýrimaður tekið við og stýrt til hafnar. 

Skipstjórinn reyndist mikið ölvaður en áfengismagn í blóði reyndist vera 2,15‰. Bæði 1. stýrimaður, sem er bróðir skipstjórans, og 2. stýrimaður báru að 1. stýrimaður hefði tekið við stjórn skipsins þegar það var komið að Engey. Skipstjórinn hefði ekki byrjað að neyta áfengis fyrr en eftir að skipið lagðist að bryggju.

Dómurinn taldi sannað, að 1. stýrimaður hefði verið við stjórn skipsins þegar því var siglt inn til hafnar og að bryggju  í þetta sinn. Vera skipstjórans í brúnni ein og sér valdi því ekki að hann taki við stjórn skipsins, þrátt fyrir stöðu hans sem skipstjóra og þurfi því ekki að skera úr um það hér hvort hann hafi verið undir áhrifum áfengis eða ekki.  

Þá taldi dómurinn að það hefði engin áhrif haft á haffærni skipsins þótt skipstjórinn væri undir áhrifum áfengis, enda hefði 1. stýrimaður stýrt því. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert