Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur frá því að bankarnir hrundu fyrir ári fengið til sín 13 kærur, þar af 11 sem tengja má íslensku bönkunum beint vegna meintra brota á reglum um innri fjármálamarkað í Evrópu.
Beinast kærurnar í flestum tilvikum gegn stjórnvöldum eða stofnunum á vegum þeirra. Koma kærurnar oftast nær frá bönkum eða öðrum fjármálafyrirtækjum í Evrópu, en einnig frá hópi sparifjáreigenda sem töpuðu á Icesave-reikningunum í Hollandi. Athugun málanna verður líklega sameinuð að sögn upplýsingafulltrúa ESA.