Lögreglan hefur handtekið fjóra Íslendinga í tengslum við mansalsmál, sem verið hefur í rannsókn hjá lögreglunni á Suðurnesjum undanfarna viku. Um er að ræða þrjá karlmenn og eina konu, sem voru handtekin á höfuðborgarsvæðinu.
Húsleitir voru gerðar á allmörgum stöðum að undangengnum dómsúrskurðum í dag. Húsleitir voru gerðar á heimilum, í fyrirtækjum og í annars konar húsnæði og þær aðgerðir standa enn yfir. Í aðgerðunum hefur lögregla lagt hald á bókhaldsgögn, skjöl og ýmsa muni til frekari rannsóknar. Ekki er útilokað að um frekari handtökur og húsleitir verði að ræða.
Lögreglan á Suðurnesjum segir, að Íslendingarnir verði yfirheyrðir en ekki liggi fyrir á þessari stundu hvort krafist verður gæsluvarðhalds yfir þeim.
Við aðgerðirnar naut lögreglan á Suðurnesjum aðstoðar lögreglumanna frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, lögreglustjóranum í Stykkishólmi og ríkislögreglustjóranum.
Fimm litháískir karlmenn sitja í gæsluvarðhaldi vegna málsins, sem kom upp eftir að 19 ára gömul litháisk stúlka kom til landsins fyrir rúmri viku. Leikur grunur á að hún hafi verið fórnarlamb mansals og hafi verið flutt nauðug hingað til lands til að stunda vændi.