Ríkisstjórnin fjallaði á fundi sínum í morgun m.a. um aðfarir og skemmdarverk sem hafa beinst að heimilum fólks að undanförnu og samþykkti yfirlýsingu þar sem slíkar aðfarir eru fordæmdar og hvatt til samstöðu um að stöðva þær.
Jóhanna Sigurðardóttur, forsætisráðherra, sagði eftir ríkisstjórnarfundinn, að gera verði skýran greinarmun á eðlilegum mótmælum og aðgerðum af þessu tagi. Nefndi hún m.a. aðsúg sem gerður var að heimili Rögnu Árnadóttur, dómsmálaráðherra, og skemmdarverk á bíl Rannveigar Rist, forstjóra Alcan á Íslandi en Rannveig brenndist í andliti af sterkum lakkleysi, sem þar var beitt.
Í yfirlýsingunni segir m.a. að rétturinn til að mótmæla miðist við að mótmælin fari skipulega fram, séu friðsamleg og rúmist innan allsherjarreglu í þjóðfélaginu.
Að undanförnu hafi verið framin skemmdarverk á heimilum einstaklinga í skjóli nætur og einnig hafi verið gerð aðför að einkaheimilum þar sem tilgangurinn sé sá að ógna viðkomandi með aðsúgi og háreisti. Milli slíks athæfis annars vegar og skipulegra mótmæla hins vegar verði að draga skýra markalínu.
„Þrýstingur, ógnanir og hótanir við heimili fólks til að hafa áhrif á ákvarðanir er óviðunandi í réttarríki. Aðfarir að heimlum, sem vekja ótta hjá börnum og öðru heimilisfólki þeirra sem þær beinast að, eiga aldrei rétt á sér. Ríkisstjórnin fordæmir skilyrðislaust og með skýrum hætti það ofbeldi, sem felst í því að ráðist sé að friðhelgi einkalífs og heimila. Ríkisstjórnin hvetur til samstöðu um að stöðva framangreinda óheillaþróun," segir í samþykktinni.