Fyrirhugaðar vaxtagreiðslur af Icesave-afborguninni brjóta í bága við fyrirvarana sem Alþingi beitti sér fyrir í sumar, að mati Illuga Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem gagnrýnir nýja samkomulagið harðlega. Ísland þurfi að greiða vexti sama hvernig árar.
„Það var akkúrat um þetta sem að fyrirvararnir giltu,“ sagði Illugi í ræðu sinni á Alþingi.
Minnti hann jafnframt á að vextirnir yrðu greiddir þótt hér kynni að verða enginn hagvöxtur á greiðslutímabilinu.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sagði í andsvari sínu á Alþingi að það væri sannarlega athyglisvert hversu mikinn Sjálfstæðisflokkurinn færi í þessu máli, í ljósi yfirlýsinga flokksins um Icesave haustið 2008 og ábyrgðar sinnar á hruninu.
Að mati Guðfríðar Lilju tókst í sumar að tryggja „öryggisventla fyrir ísland“ vegna afborganna fyrir Icesave, þannig að nú séu engar líkur á að þeir vextir sem Ísland þurfi að greiða fari fram yfir hámarkið sem samið var um.
Sjálfstæðismenn ættu að hafa þann „stórhug“ að fagna örlitlum góðum fréttum - eins og fréttum um að 90% fáist upp í Icesave-kröfurnar úr þrotabúi Landsbankans - „úr því hörmulega uppvaski sem eftir hann er úr hruninu“ og því að þetta greiðsluþak haldi, „Íslandi til hagsbóta“.