Eygló Harðardóttir, alþingismaður Framsóknarflokksins, segir að verði farið út í fyrningu aflaheimilda muni það leiða til gjaldþrots Landsbankans. Bankinn sé með um 50% af öllum skuldum sjávarútvegsins og fyrning aflaheimilda kæmi til með að hafa mikil áhrif á þau veð sem bankinn hefur fyrir þessum skuldum.
Ríkið hefur þurft að leggja Landsbankanum til mikla fjármuni í tengslum við endurskipulag á fjárhag bankans. Eygló segir að við allar venjulegar aðstæður ættu skuldir sjávarútvegsins við bankakerfið að vera flokkaðar með traustari lánum enda gengi rekstur sjávarútvegsins ágætlega. Áætlað væri að skuldir sjávarútvegsins væru um 400 milljarðar og helmingur þeirra væru hjá Landsbankanum. Áform ríkisstjórnarinnar um fyrningu aflaheimilda settu hins vegar veð fyrir þessum lánum í uppnám.
"Ég fæ ekki betur séð en ef farið verði út í fyrningu aflaheimilda þá verði Landsbankinn gjaldþrota," sagði Eygló. Hún sagði að það hefði síðan að sjálfsögðu áhrif endurheimtu Icesave-skuldbindinganna ef fjárhagsstöðu Landsbankans yrði stefnt í voða með fyrningu aflaheimilda.