Gunnar Smári: Góðærið drifið áfram af botnlausri lántöku

Gunnar Smári Egilsson
Gunnar Smári Egilsson mbl.is/Golli

Hið taumlausa góðæri síðustu ára var drifið áfram af botnlausri lántöku sem gat af sér eignabólu, sem aftur gaf almanna tilfinningu fyrir velsæld. Öll fyrirbrigði íslensks samfélags kaffærðu sig í lánum; sveitarfélög, opinber fyrirtæki, einkafyrirtæki, heimili og einstaklingar – allir nema ríkið, skrifar Gunnar Smári Egilsson, fyrrverandi forstjóri Dagsbrúnar á vef SÁÁ.

Ekki batnaði grunnþjónustan í þenslunni

„Ríkið þurfti ekki að taka lán. Það bólgnaði út af sífellt vaxandi skattgreiðslum vegna góðærisfroðunnar. Ríkinu tókst meira að segja að greiða niður lán á þessum tíma. Eða ef orðum það öðru vísi: Alþingi og ríkisstjórn tókst ekki að eyða öllum þeim fjármunum sem streymdu í ríkiskassann þrátt fyrir einbeittan vilja.

Á góðæristímanum þandist ríkisreksturinn út. Þó ekki þannig að hefðbundin þjónusta ríkisins yrði betri. Ég held að enginn Íslendingur kannist við að grunnþjónustan – skólarnir, heilbrigðiskerfið, löggæslan – hafi batnað á þessum tíma. Þvert á móti er almenn tilfinning meðal íbúanna að þjónustan hafi annað hvort versnað eða orðið dýrari vegna þjónustugjalda. En oftast hvort tveggja versnað og orðið dýrari.

 En í hvað fór þá rúmlega 50 prósent vöxtur ríkisútgjalda ef miðað er við fast verðlag? Læknum á hverja þúsund íbúa fjölgaði ekki, ekki löggum eða kennurum, ekki hjúkrunarkonum eða götusópurum. Við búum svo vel að hafa um það bil jafn mikið af fólki í þessum nauðsynlegu stéttum og fólk í þeim löndum sem búa við mesta velsæld. En því marki náðum við fyrir mörgum árum, löngu áður en ríkið fór að vaxa í góðærinu. Það sem góðærið gerði var að skera okkur frá öðrum þjóðum þegar kemur að fjölda sendiherra á hverja þúsund íbúa, fjölda starfsmanna fjársýslu ríkisins og Seðlabanka, Póst- og fjarskiptastofnunar og Framkvæmdasýslu ríkisins. Engin þjóð í veröldin á jafn marga starfsmenn fasteignarskrár og Íslendingar, engin fleiri starfsmenn vinnueftirlits, heilbrigðiseftirlits eða nýsköpunarmiðstöðvar – að ekki sé talað um starfsmenn ráðuneyta, þings og þingflokka," skrifar Gunnar Smári í pistli sínum á vef SÁÁ.

Pistill Gunnars Smára Egilssonar í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert