Icesave ekki á dagskrá í dag

Steingrímur J. Sigfússon mun ekki mæla fyrir Icesave-frumvarpi í dag.
Steingrímur J. Sigfússon mun ekki mæla fyrir Icesave-frumvarpi í dag. mbl.is/Ómar

Fellt var í atkvæðagreiðslu á Alþingi í dag, að veita afbrigði frá þingsköpum fyrir því að að Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, gæti mælt fyrir nýju frumvarpi um ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindinganna. Frumvarpið verður væntanlega sett á dagskrá á morgun í staðinn.

Frumvarpið var lagt fram á Alþingi í dag og átti að vera á dagskrá þingfundar í dag. Samkvæmt þingsköpum má ekki taka frumvarp til umræðu fyrr en liðnar eru að minnsta kosti tvær nætur frá því er því var útbýtt en hægt er að samþykkja afbrigði frá þeim reglum og er það raunar oft gert. 

29 þingmenn greiddu atkvæði með því að veita afbrigði en 23 á móti. Samkvæmt túlkun forseta þarf hins vegar aukinn meirihluta til að samþykkja afbrigði frá þingsköpum og taldist tillagan því hafa verið felld.

Fyrir atkvæðagreiðsluna sagði Illugi Gunnarsson að sýna verði Alþingi og þjóðinni allri þá virðingu, að undirbúningur fyrir fyrstu umræðu um málið verði vandaður. Sömu skoðun lýsti Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokks. 

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagðist vera sammála þingmönnum um að fram eigi að fara vönduð umræða um málið. Hins vegar sé málið þingmönnum í fersku minni því því að fjallað var um ríkisábyrgð vegna Icesave í sumar og haust. Þá hafi fjárlaganefnd þingsins og þingflokkar fengið kynningu á málinu á sunnudag og æskilegt sé að fjárlaganefnd fái það sem fyrst til meðferðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert