Kaupþing tapaði máli gegn Bretum

Kaupþing
Kaupþing mbl.is/Ómar

Breskur dómstóll dæmdi í dag að tilfærsla innstæðna af Edge reikningum hjá Kaupthing Singer og Friedlander í október 2008 hafi verið lögmæt aðgerð að hálfu breska fjármálaráðuneytisins. Kaupþing höfðaði málið gegn ráðuneytinu þar sem bankinn taldi að ráðuneytið hafi farið út fyrir valdsvið sitt.

Dómstóll í Bretlandi kvað í dag upp dóm í máli Kaupþings banka gegn breska fjármálaráðuneytinu, en málið hófst í janúar 2009 er Kaupþing banki óskaði eftir lagalegri endurskoðun á lögmæti ákvörðunar breska fjármálaráðuneytisins í október 2008 um að flytja innstæður á Kaupthing Edge reikningum hjá Kaupthing Singer & Friedlander (KSF) til þriðja aðila.

Ákvörðun byggð á neyðarlögum

Þann 8. október 2008 beitti breska fjármálaráðuneytið neyðarlögum í samræmi við bankalöggjöf þar í landi til að flytja innstæður af innlánsreikningum Kaupthing Edge til ING Direct í Hollandi skv. tilmælum um flutning eigna.

Afstaða Kaupþings banka í málinu vegna beiðnar um lagalega endurskoðun breskra dómstóla byggðist á því að breska fjármálaráðuneytið hefði farið út fyrir valdsvið sitt með aðgerðum gegn KSF. Kaupþing hélt því fram að tilmæli um flutning eigna hefðu verið sett í þeim tilgangi að verja innstæðueigendur KSF í Bretlandi en ekki til að viðhalda stöðugleika breska fjármálakerfisins í heild.

Í bráðabirgðaúrskurði frá 3. mars 2009 var úrskurðað að Kaupþing gæti haldið áfram með málarekstur og fært fram efnisleg rök fyrir beiðni um lagalega endurskoðun á lögmæti ákvörðunarinnar fyrir breskum dómstólum.

Á því stigi viðurkenndi dómstóllinn mikilvægi málstaðarins fyrir Ísland, þar sem málið snerist um mikilverð réttindi á sviði banka- og stjórnskipunarréttar.

Í málflutningi sem fór fram hinn 10. júlí 2009 lögðu Kaupþing banki og breska fjármálaráðuneytið fram skjöl, vitnisburði og önnur sönnunargögn í málinu og gerðu grein fyrir málsástæðum sínum og lagarökum.

Engin mistök í ákvörðunarferlinu hjá ráðuneytinu

Það er niðurstaða dómstólsins að þótt gögn málsaðila frá þessum tíma um afskipti breska ríkisins af rekstri KSF séu ekki tæmandi, þá sýni þau að viðbrögð yfirvalda hafi verið í samræmi við ríkjandi viðmið. Dómstóllinn telur að breska fjármálaráðuneytið hafi starfað á grundvelli gildandi lagaheimilda og að engin mistök hafi átt sér stað í ákvörðunarferlinu, að því er segir í tilkynningu.

Steinar Þór Guðgeirsson, formaður skilanefndar Kaupþings, segir í tilkynningu frá bankanum: „Skilanefnd bankans hefur allt frá síðasta hausti verið þeirrar skoðunar að það væri nauðsynlegt að láta dómstóla skera úr um hvort aðgerðir breskra yfirvalda hafi verið sanngjarnar og lögmætar. Við höfum nú fengið niðurstöðu í málinu og hún er sú að ákvörðun breska fjármálaráðuneytisins er talin lögleg. Meginmarkmið þessara málaferla af hálfu skilanefndar var að draga fram í dagsljósið allar tiltækar upplýsingar um það á hvaða grunni breska fjármálaráðuneytið byggði aðgerðir sínar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert