Krónuskuld í gjaldeyrisskuld við AGS

Gunnar Tómasson hagfræðingur
Gunnar Tómasson hagfræðingur

Að óbreyttu mun Seðlabanki Íslands nota lánsfjármagnaðan gjaldeyrisvarasjóð til að stilla af gengi krónunnar þegar höftum er aflétt og eigendur nokkur hundruð milljarða innilokaðra króna umbreyta þeim í gjaldeyri. Þetta kemur fram í bréfi sem Gunnar Tómasson, hagfræðingur hefur sent til alþingismanna.

Að sögn Gunnars þá velja stjórnvöld þennan kost  til þess að koma í veg fyrir að gengi krónunnar hríðfalli með tilheyrandi  verðbólguskoti og um leið mikilli hækkun verð- og gengistryggðra lána heimila og fyrirtækja.
 
Er þá ekki ráð að afnema verð- og gengistryggingu lána, spyr Gunnar í bréfi til þingmanna og svarar þeirri spurningu játandi en segir að stjórnvöld setji hagsmuni fjármagnseigenda ofar hagsmunum heimila og fyrirtækja.  

Að óbreyttu mun Ísland því umbreyta krónuskuldum við erlenda spekúlanta í gjaldeyrisskuldir við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, o.fl, skrifar Gunnar.
 
Hann rifjar upp viðtal RÚV við Kenneth Rogoff, fyrrverandi aðalhagfræðing AGS fyrr á árinu þar sem fram kom að það væri nær fordæmalaust að þjóðir gætu staðið undir erlendri skuldsetningu af stærðargráðunni 100 – 150%.
 
Erlend skuldastaða Íslands án Icesave er 233% ef marka má nýlegar tölur Seðlabanka Íslands, segir Gunnar í bréfinu og bendir þingmönnum á að nú hafi Alþingi verk að vinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert