Alger sprenging varð í haldlagningu ólöglegra fíkniefna í fyrra og hefur það haldið áfram á þessu ári, að sögn Karls Steinars Valssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá Lögreglu höfuðborgarsvæðisins. Hann flutti erindi á morgunverðarfundi VIKU 43 í morgun.
Karl Steinar sagði að á skrá hjá lögreglunni sé um 100 manns sem talið er að séu mikið í sölu og dreifingu fíkniefna. Í ár hafa verið rannsökuð 48 mál sem tengjast framleiðslu á kannabisefnum. Búið er að gefa út ákærur í þeim flestum, en um tíu mál eru á lokastigum rannsóknar. Í heild er búið að leggja hald á 600-700 kg af kannabisplöntum til viðbótar við tugi kílóa af tilbúnu marijúana, kannabislaufum og hassi.
Karl Steinar sagði að ábendingum frá borgurunum um grunsemdir um kannabisræktun á ýmsum stöðum hafi beinlínis rignt inn til lögreglu. Góður árangur fíkniefnadeildar lögreglu höfuðborgarsvæðisins við að uppræta slíka starfsemi hefur orðið til þess að fíkniefnaframleiðsla hefur í auknum mæli færst út á land og þar eru nú margar kannabisræktanir, að sögn Karls Steinars.
Morgunverðarfundurinn var haldinn í tilefni vímuvarnarviku. Að honum stóð Samstarfsráð um forvarnir, SAMFO. Það er vettvangur félagasamtaka sem vilja leggja forvörnum lið og/eða hafa forvarnir að markmiði starfs síns. Í því skyni er árlega efnt til vímuvarnaviku meðal annars með það að markmiði að vekja athygli landsmanna á mikilvægi forvarna, einkum forvörnum sem beinast að börnum og unglingum.
Verkefnið ber nú yfirskriftina Vika 43 og stendur
að þessu sinni yfir dagana frá 18. október til 24. október.