Bæjarstjóra Vesturbyggðar var í gær afhentur undirskriftarlisti með á sjöunda hundrað nöfnum íbúa. Þeir mótmæla fyrirhugaðri fækkun á ferðum Breiðafjarðarferjunnar Baldurs. Heimamenn telja ferðaöryggi stofnað í hættu með þessum fyrirætlunum, enda einnig í farvatninu að fækka snjómokstursdögum.
Íbúar segja Baldur oft einu samgönguleiðina á veturna og þó svo fært sé landleiðina noti flestir ferjuna fremur en að keyra Breiðafjörðinn. Þeir telja óásættanlegt að fækka ferðum hennar á meðan akstursleiðin fyrir fjörðin er í því ástandi sem hún er, þ.e. illa stikaðir malarvegir þar sem varla sést vegrið þó að um háar heiðar og hálsa þurfi að fara.