Ríkið ber mikla gengisáhættu vegna Icesave

Veikist gengi krónunnar á samningstíma Icesave-samningsins við Breta og Hollendinga getur það leitt til þess að kostnaður íslenska ríkisins aukist um hundruð milljarða. Lagalega umhverfið í kringum uppgjör á þrotabúi gamla Landsbankans gerir það að verkum að mikil gengisáhætta hvílir á ríkinu vegna Icesave-samningsins.

Ástæðan er einföld. Krafa Tryggingasjóðs innistæðueigenda í þrotabú gamla Landsbankans er 670 milljarðar í íslenskum krónum. Skuldir sjóðsins við Breta og Hollendinga eru hins vegar í erlendri mynt og hækka því í íslenskum krónum með veikara gengi krónunnar.

Sama er hve mikið fæst til baka af eignum gamla Landsbankans, sjóðurinn mun aldrei fá meira en áðurnefnda 670 milljarða. Veikist krónan mikið getur það orðið til þess að allar forgangskröfur í þrotabú Landsbankans fáist greiddar og að eitthvað fáist upp í almennar kröfur.

Til almennra krafna teljast t.d. skuldabréf, gefin út af bankanum, og hafa eigendur þessara bréfa því hagsmuni af því að gengið veikist á meðan þrotabú bankans er gert upp.

Sé gert ráð fyrir því að allar forgangskröfur fáist greiddar með eignum gamla Landsbankans mun ríkið þurfa að bera vaxtakostnaðinn af bresku og hollensku lánunum. Höfuðstóll upp á 720 milljarða og óbreytt gengi þýðir að eftir fimm ár verður nettóskuld tryggingasjóðsins um 270 milljarðar, 380 milljarðar eftir sjö ár og 500 milljarðar eftir níu ár.

Dæmið verður enn svartara sé gert ráð fyrir frekari veikingu krónunnar. Veikist krónan um 25 prósent gagnvart evru og pundi verður nettóskuld íslenska ríkisins 500 milljarðar eftir fimm ár og 780 milljarðar eftir níu ár.

 
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert