Hollenskir sparifjáreigendur, sem áttu inneignir á Icesave-reikningum Landsbankans þar í landi, telja að hollensk stjórnvöld beri ábyrgð á því jafnt og íslensk að Landsbankinn fékk að safna innlánum í Hollandi. Þess vegna beri hollenskum stjórnvöldum skylda til að aðstoða sparifjáreigendurna í málaferlum til að endurheimta allar innistæður sínar.
Fram hefur komið, að tæplega tvö hundruð hollenskir Icesave-innistæðueigendur undirbúa lögsókn gegn Íslandi. Um er að ræða sparifjáreigendur, sem áttu meira en 20.887 evrur á reikningunum. Telja þeir að sér sé mismunað á grundvelli þjóðernis, en íslenskir sparifjáreigendur hafi fengið fjármuni sína greidda út af nýja Landsbankanum ólíkt þeim hollensku þrátt fyrir að þeir séu allir viðskiptavinir sama bankans. Um sé að ræða brot á alþjóðlegum neytendarétti.
Í bréfi, sem Gerard van Vliet, talsmaður hollensku sparifjáreigendanna, hefur sent Ólafi Elíassyni, einum af forsvarsmönnum samtakanna InDefense, segir m.a. að sparifjáreigendurnir hafi komist að þeirri niðurstöðu, að hollenski seðlabankinn hafi vitað af þeirri áhættu, sem fylgdi starfsemi Landsbankans í Hollandi en ekki aðhafst neitt. Hollenska fjármálaráðuneytið verði því að aðstoða hollensku sparifjáreigendurna í málaferlum sínum.
Fram kom í júlí, að Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands sendi Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra bréf þar sem fram kom að hollensk stjórnvöld muni ekki eiga aðild að hugsanlegum málaferlum hollenskra innistæðueigenda á hendur íslenskum stjórnvöldum.