Sex liggja alvarlega veikir á gjörgæsludeild Landspítalans með H1N1 flensu, svínaflensu, en tveir voru lagðir inn á deildina í gær, samkvæmt upplýsingum frá Haraldi Briem sóttvarnarlækni. Alls eru rúmlega þrjátíu sjúklingar á Landspítalanum með svínaflensu.
Að sögn Haraldar er ólíklegt að allir þeir sjúklingar sem eru með svínaflensu á spítalanum verði settir á sömu deild enda fjöldinn meiri en ein deild rúmar. Álagið sé hins vegar mikið á gjörgæsludeildinni.
Hann segir að ekki sé útlit fyrir að toppinum sé náð á Íslandi því sífellt fleiri greinast með veikina.
Átján ára fjölfötluð stúlka lést í fyrradag á Barnaspítala Hringsins af völdum inflúensunnar. Þetta er fyrsta dauðsfallið hérlendis af völdum inflúensunnar.
Yfir 3.600 tilkynningar um inflúensulík einkenni eða staðfest inflúensutilfelli á Íslandi höfðu borist þann 18. október.