Björn og Egill elda grátt silfur

Egill Helgason
Egill Helgason mbl.is/Rax

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, segir á vef sínum að hlutdrægni Egils Helgasonar í afstöðu hans til manna og málefna geri hann óhæfan til að stjórna sjónvarpsþætti um þjóðmál, eigi þátturinn að lúta lögum um ríkisútvarpið. Egill svarar Birni á sínum vef en þar kemur fram að þetta sé í annað skiptið sem Björn vilji láta reka hann. Það hafi tekist í fyrra skiptið.

„Fyrst kom Hannes, svo Sturla Böðvarsson, og þá Björn Bjarnason, ég var reyndar búinn að bíða eftir honum. Seinast í fyrradag velti ég því fyrir mér af hverju hann væri ekki búinn að tjá sig. Og auðvitað kom það.

Að ógleymdum Óla Birni Kárasyni.

Ég ætla ekki að standa í neinum stælum við þessa menn. Bara rifja eitt upp.

Þetta er í annað skiptið sem þeir vilja láta reka mig.

Þannig að þetta er nánast eins og kækur hjá þeim, þegar illa gengur.

Í fyrra skiptið tókst það.

Það var á Skjá einum árið 2003.

Björn Bjarnason hafði farið í borgarstjórnarkosningar 2002 og tapað illilega. Hópurinn í kringum hann var mjög reiður út af þessu og leitaði að sökudólgum. Ég og Kristján Kristjánsson í Kastljósi vorum fljótt nefndir til sögunnar. Við vorum skensaðir á prenti hvað eftir annað og uppnefndir, af Hannesi Gissuararsyni og Birni sjálfum.

Nýjr stjórnendur tóku við Skjá einum þarna um veturinn og þeir tengdust DV sem þá var undir ritstjórn Óla Björns Kárasonar – reyndar var eigendahópurinn DV  þá nokkuð svipaður því sem er nú á Mogganum. DV varð harðsnúið málgagn þöngs valdahóps og missti fljótt tiltrú, næst því að vera eins konar Vef-Þjóðvilji í dagblaðsformi – ekki ólíkt því sem Mogginn er núna.

Þarna um veturinn kom í ljós að hinir nýju stjórnendur Skjásins þoldu mig ekki og vildu losna við mig. Hápunkti náði það fyrir kosningar um vorið, en þá voru mér birtar tillögur að breytingum á Silfri Egils. Sniðið á þættinum átti að gerbreytast og ég átti að fá á mig einhvers konar yfirfrakka – útsendara af DV sem átti að stjórna þættinum með mér. Ég hef grun um hver þetta átti að vera, en ætla ekki að upplýsa það. Ég á ennþá þetta uppkast að hinu dauðhreinsaða Silfri, geymi það á vísum stað.

Við þetta varð mikil sprenging á Skjánum. Starfsmenn reyndu að ganga í milli og það endaði með því að áformin um breytingarnar á Silfrinu voru blásnar af. Um vorið var mér hins vegar sagt upp. Ég var atvinnulaus fram í október, þá hitti ég Sigurð G. Guðjónsson, þáverandi forstjóra Stöðvar 2, á Austurvelli og hann bauð mér að koma upp á Stöð 2 með þáttinn. Ég nefni að Stöð 2 var þá ekki ennþá komin í hendur Baugs, það gerðist nokkru seinna.

Reyndar skal ég taka fram að Baugsmenn reyndu aðeins einu sinni að hafa áhrif á efnistök mín í Silfrinu eftir að þeir tóku yfir Stöð 2. Það var árið 2005 þegar ég tók viðtal við Friðrik G. Friðriksson um verslunareinokun Baugs, nokkuð samhljóða viðtalinu sem ég átti við hann í Silfrinu fyrir rúmri viku. Það var efni sem þeir vildu ekki að væri fjallað um," skrifar Egill á síðu sína á Eyjunni.

Björn segir á sínum vef að fráleitasta framlag til Icesave-umræðunnar nú er að ræða orð, sem féllu um málið fyrir ári eða almennt, áður en Steingrímur J. og Jóhanna komu að því eftir 1. febrúar 2009 og fólu Svavari Gestssyni forystu fyrir samninganefndinni til að leiða Icesave til lykta.

„Augljóst var þá og allt fram að vandræðum ríkisstjórnarinnar með málið 5. júní síðastliðinn, að hún taldi sig vera með það á réttu róli, af því að hún hefði tekið það allt öðrum og betri tökum en gert hefði verið fram að 1. febrúar 2009.

Söguskýringar álitsgjafa stjórnarflokkanna og ESB-aðildarsinnanna Egils Helgasonar, Illuga Jökulssonar og Guðmundar Gunnarssonar breyta þessum bláköldu staðreyndum um ábyrgð Steingríms J., Jóhönnu og Svavars á málinu ekki. Þau sitja uppi með málið í núverandi mynd þess, hver sem forsagan var og hvernig sem á hana er litið.

Hér skal áréttuð sú skoðun, að hlutdrægni Egils Helgasonar í afstöðu hans til manna og málefna geri hann óhæfan til að stjórna sjónvarpsþætti um þjóðmál, eigi þátturinn að lúta lögum um ríkisútvarpið. Lögleysan í kringum þátt Egils, verður ekki afsökuð með því, að hann sé einhver öryggisventill fyrir almenningsálitið, sem annars brytist fram á enn hroðalegri hátt en í nafnlausri illmælgi á bloggsíðu Egils. Hver hefur heimild til að leysa Egil Helgason undan lögum um ríkisútvarpið? Páll Magnússon, útvarpsstjóri? Sé svo, ætti hann að sýna eigendum RÚV hana," að því er segir á vef Björns Bjarnasonar.

Vefur Björns Bjarnasonar

Vefur Egils Helgasonar

Björn Bjarnason
Björn Bjarnason mbl.is/Rax
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert