Byggja þarf 30 þúsund íbúðir til ársins 2050

Gert er ráð fyrir að byggja þurfi um 30 þúsund …
Gert er ráð fyrir að byggja þurfi um 30 þúsund íbúðir í Reykjavík til ársins 2050 mbl.is/Heiddi

Gert er ráð fyrir að byggja þurfi um 30 þúsund íbúðir í Reykjavík til ársins 2050 og hafa verið mótaðir þrír valkostir um byggðaþróun til þess tíma. Þetta kemur fram á kynningarfundi um endurskoðun aðalskipulags Reykjavíkur sem nú stendur yfir.Skipulagskostur A felur í sér að allt að 75% af heildaríbúðarþörfinni verði mætt með uppbyggingu á þéttingarsvæðum, skipulagskostur C gerir ráð fyrir að 75% af heildarfjölda íbúða byggist upp í útverfum - sem fæli í sér að meginuppbygging borgarinnar í framtíðinni yrði  í útjaðri borgarinnar, en skipulagskostur B gerir hins vegar ráð fyrir jafnvægi í uppbyggingu íbúða á þéttingarsvæðum og í úthverfum.

Nýtt aðalskipulag mun ekki fela í sér grundvallarbreytingar á landnotkun eða gatnaskipulagi en veigamiklar breytingar gætu orðið á tilteknum lykilsvæðum. Þau eru:

Miðborgin Miðborg Reykjavíkur er helsta aðdráttarafl og „andlit“ borgarinnar. Efling hennar er því mikilvæg og þær áherslur endurspeglast m.a. í vinnu við sérstaka borgar‐ og húsverndarstefnu, stefnu um gæði og yfirbragð byggðar, stefnu um hæð húsa, með það að  markmiði að tryggja varðveislu byggingararfsins og þeirra umhverfisgæða sem í honum eru fólgin.

 

Vatnsmýri Í Vatnsmýri felst  mikilvægur valkostur fyrir þróun Reykjavíkur. Í gildandi aðalskipulagi er gert ráð fyrir því að flugvöllurinn verði lagður niður í framtíðinni. Efnt var til hugmyndasamkeppni um byggð í Vatnsmýri í samræmi við þá stefnu. Mótun stefnu í nýju aðalskipulagi mun einkum snúa að því að ákvarða landnotkun í Vatnsmýri og tímasetningar í því sambandi.

 

Örfirisey og gamla höfnin Til að fá fram heildarsýn á Gömlu höfnina og Örfirisey, tengsl hafnarsvæðanna innbyrðis og við miðborgina og Vesturbæinn, hafa Faxaflóhafnir efnt til hugmyndasamkeppni um heildarskipulag svæðisins. Aldrei áður hefur verið gert heildarskipulag fyrir þetta svæði sem þó er mjög mikilvægt fyrir heildarmynd borgarinnar. Verðlaunaðar tillögur verða mikilvægt innlegg í endurskoðun aðalskipulagsins.

Elliðaárvogur Hugmyndir eru um fjölbreytta og þétta byggð í Elliðaárvogi þar sem tekið er tillit til staðsetningar í borginni, landgæða, opinna svæða og nálægðar við stofnbrautir. Nýtt aðalskipulag mun væntanlega gera ráð fyrir nýju iðnaðarsvæði og iðnaðarhöfn sem geta tekið við þeim fyrirtækjum sem þurfa að víkja fyrir nýrri borgarbyggð í Ártúnshöfðanum.

Geldinganes Í gildandi aðalskipulagi var gert ráð fyrir stórskipahöfn í Geldinganesi og að stærsti hluti svæðisins yrði iðnaðar- og athafnasvæði. Þeim áformum var breytt árið 2005 við stofnun Faxaflóahafna og er nú gert ráð fyrir íbúðarbyggð í Geldinganesi, í bland við verslun, þjónustu og létta atvinnustarfsemi. Þá er samkvæmt gildandi aðalskipulagi stefnt að blandaðri byggð á 50 ha landfyllingu við Gufunes. Umfang landfyllingar og magn byggðar við Gufunes verða tekið til skoðunar í aðalskipulagsvinnunni í samhengi við skipulag blandaðrar byggðar í Geldinganesi.

Úlfarsárdalur Ekki er gert ráð fyrir að nýtt aðalskipulag feli í sér miklar breytingar fyrir Úlfarsárdalinn. Aðalskipulagið gæti þó skerpt á stefnu um uppbyggingu þjónustukjarna við Leirtjörn, mörk og skipulag skólahverfa, framboð húsagerða og yfirbragð byggðar.

 

Álfsnes Óhagstæð veðurskilyrði, hrjóstrugt land og nálægð við núverandi vinnslusvæði Sorpu gera það að verkum að íbúðarbyggð eða blönduð byggð á vestan- og norðanverðu Álfsnesi er ekki fýsilegur kostur. Það eru því margvísleg rök sem mæla með því að það svæði verði þróað sem iðnaðar- og athafnasvæði.

 Sjá nánar 

 
Lykilsvæðin sjö
Lykilsvæðin sjö
Skipulagskostir í Reykjavík
Skipulagskostir í Reykjavík
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert