Engin flokkspólitík í BSRB

Ögmundur Jónasson, fremst á myndinni, er að halda síðustu ræðu …
Ögmundur Jónasson, fremst á myndinni, er að halda síðustu ræðu sína sem formaður BSRB. mbl.is/Golli

Ögmundur Jónasson er nú að halda síðustu ræðu sína sem formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja en nýr formaður verður kjörinn á þingi BSRB, sem nú er að hefjast. Ögmundur hefur gegnt embættinu í tvo áratugi. Hann sagði m.a. í upphafi ræðu sinnar að á ferli hans sem formaður BSRB hafi stjórn bandalagsins aldrei hugsað eftir flokkspólitískum línum.

„Aldrei var samþykkt ein einasta ályktun í stjórninni, aldrei á þessum tveimur áratugum, sem einn einasti stjórnarmaður var andvígur. Ef svo var þá var ályktuninni breytt þangað til allir gátu sætt sig við hana eða hún lögð til hliðar," sagði Ögmundur.

Hann sagði að sjaldan hefði þó ályktun verið lögð til hliðar því stjórn BSRB hefði yfirleitt ekki haldið á nein óvissumið.

„Þetta er umhugsunarvert í ljósi þess að margoft hafa birst yfirlýsingar frá BSRB sem ýmsum hafa þótt nokkuð afdráttarlausar. Hvað segir þetta okkur? Í fyrsta lagi segir þetta okkur að BSRB hefur forðast að taka afstöðu í málum sem mjög deildar meiningar eru um á meðal félagsmanna og stjórnarmanna. Þannig reyndi BSRB ekki að taka afstöðu til stóriðjustefnunnar. Kárahnjúkavirkjun var aldrei á dagskrá hjá stjórn BSRB eða á þingum og ráðstefnum bandalagsins. Og þegar aðild Íslands að Evrópusambandinu bar á góma þá var áherslan á upplýsingar og lýðræðislega aðkomu að málinu. Öðru máli gegndi hvað menn sögðu sem einstaklingar. En í nafni BSRB var áherslan á upplýsingu og lýðræði.

Þegar þáverandi ríkisstjórn hundsaði kröfur tugþúsunda Íslendinga um þjóðaratkvæðagreiðslu um inngöngu Íslands í hið Evrópska efnahagssvæði árið1993 og leyfði sér að skýra afstöðu sína með því að almenningur væri ekki nógu upplýstur um málið til að taka um það ákvörðun þá réðst BSRB í auglýsingaherferð þar sem krafist var þjóðaratkvæðagreiðslu. Auglýsingarnar byggðu á gömlum málsháttum sem áttu að endurspegla visku þjóðarsálarinnar og voru áminning hrokafullum stjórnmálamönnum að hugleiða í hverra umboði þeir störfuðu."

Ögmundur sagði, að BSRB hefði átt frumkvæði að auglýsingaherferðum verkalýðshreyfingarinnar. Sú fyrsta hefði endað með hvelli en í aðdraganda verkfalls BSRB haustið 1984 birtust skjáauglýsingar í sjónvarpi með myndum af félagsmönnum úr ýmsum starfsstéttum þar sem greint var frá launum þeirra.

„Þetta þoldi þáverandi útvarpsráð ekki, bannaði auglýsingarnar og kynnti þar með undir komandi átökum," sagði   Ögmundur m.a. í upphafi ræðu sinnar.

Fjölmenni var við setningu þings BSRB í morgun.
Fjölmenni var við setningu þings BSRB í morgun. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert