Framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) stefnir að því að taka endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands fyrir á fundi sínum miðvikudaginn 28. október næstkomandi. Uppfærð efnahagsáætlun var send framkvæmdastjóra AGS í gær, að því er segir í tilkynningu frá stjórnvöldum.
Íslensk stjórnvöld telja víst að framkvæmastjórnin muni samþykkja endurskoðun áætlunarinnar á fundi sínum að viku liðinni. Í kjölfarið mun Ísland fá aðgang að öðrum hluta af lánafyrirgreiðslu AGS upp á 105 miljónir SDR eða 168 milljónir Bandaríkjadala, 20,6 milljarða króna. Þá opnast einnig aðgangur að fyrsta fjórðungi 2,7 milljarða dala lánafyrirgreiðslu Norðurlandanna og Póllands, eða að 675 milljónum dala, samkvæmt tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.
Samkvæmt starfsreglum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verður uppfærð efnahagsáætlun og skjöl henni tengd gerð opinber að loknum fundi framkvæmdastjórnarinnar 28. október næstkomandi.