Jafna þarf flutningskostnað

Höskuldur Þórhallsson.
Höskuldur Þórhallsson.

Landsbyggðin þarf fyrst og fremst jöfnun á flutningskostnaði, að mati Höskuldar Þórhallssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, sem telur umræðu um strandsiglingar á villigötum. Rætt var um stöðu landsbyggðarinnar í utandagskrárumræðum á Alþingi í dag.

Hann þekkti til þriggja stórra fyrirtækja sem veltu því fyrir sér hvort ekki væri betra að flytja fyrirtæki sín suður til Reykjavíkur. Strandsiglingar dugi einar og sér ekki til. Stjórnvöld eigi að koma til móts við fólk á Bakka og á Reykjanesi í stað þess að „flækjast fyrir“.

Árni Johnsen tók einnig til máls í umræðunum með þeim orðum að höfuðborgarsvæðið væri nú frekt til fjárins, eins og ljóst hefði orðið eftir hrunið síðasta haust.

Landsbyggðin skilaði langstærstum hluta tekna „í okkar kerfi“. Ef kvótafyrningin gangi eftir fari fiskvinnslufyrirtækin „unnvörpum á hausinn“. „Menn pússa augabrýrnar á höfuðborgarsvæðinu“ og telja þetta „sanngjarnt og skynsamlegt“ sagði Árni sem taldi fyrningaleiðina „galna hugmynd“.

Taldi hann þúsundir starfa í uppnámi á Suðurnesjum „vegna sinnuleysis ríkisstjórnarinnar“.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra gerði athugasemdir við þennan málflutning með þeim orðum að á landsbyggðinni væri afstaðan til kvótakerfisins blendin. Raufarhöfn og Hrísey væru dæmi um byggðafélög sem ættu um sárt að binda vegna kvótakerfisins. Þingmenn sem töluðu svona ættu „frekar að gleðjast yfir strandveiðum“ en að „hafa allt á hornum sínum“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert