Lásu þau Icesave-plöggin?

Birgir Ármannsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir á Alþingi.
Birgir Ármannsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir á Alþingi.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði fulltrúa ríkisstjórnarinnar fyrir stundu hvort þeir hefðu lesið nýsamþykktan Icesave-samning. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, og Steinunn Valdís Grétarsdóttir, þingmaður Samfylkingar, fullvissuðu þingmanninn um það. 

Birgir gerði að umtalsefni að af svörum formanna stjórnarflokkanna mætti ráða að meirihlutastuðningur væri fyrir Icesave-samkomulaginu. Hins vegar væri óvíst með stuðning Ögmundar Jónassonar, fyrrverandi heilbrigðisráðherra.

Liggja þurfi fyrir hvort samþykki stjórnarflokkanna á sunnudag eða mánudag hafi falið í sér stuðning við frumvarpið eða hvort þingflokkarnir hafi samþykkt það eitt að framlengja það. Sama gildi um hvort þingmenn hafi gert fyrirvara um afgreiðslu málsins eins og algengt sé.

Þá spurði Birgir hvort þingflokkar stjórnarflokkanna hefðu farið í gegnum Icesave-frumvarpið og fylgigögn þess en fordæmi væru fyrir því að slík mál hafi verið samþykkt blindandi og án þess að menn hafi haft nokkur skrifleg gögn fyrir framan sig eins og Guðfríður Lilja hafi greint opinberlega frá.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, varð til svara fyrir flokk sinn en hún kvaðst geta fullvissað Birgi um að hann þyrfti ekki að velkjast í vafa um stuðning Samfylkingar við frumvarpið.

Hann þurfi heldur ekki að hafa sérstakar áhyggjur af þingflokki Samfylkingar sem standi einhuga að baki framlagningu frumvarpsins og þeirri efnislegu niðurstöðu sem stefnt sé að varðandi málið.

Bjartsýn um samþykkt Icesave-samkomulagsins 

Guðfríður Lilja svaraði fyrir Vinstri græna en hún sagði fullan einhug í þingflokknum um að málið fengi þinglega meðferð.

Allir þingmenn væru sammála um að tekist hefði að ná fram góðum og jákvæðum breytingum. Samningsstaða Íslands hefði augljóslega styrkst við fyrirvara sem Alþingi setti. Guðfríður Lilja sagði, að sjálfsögðu hefði verið farið vandlega yfir þau gögn sem voru á borðinu. Hún sé því mjög bjartsýn um að málið verði farsællega til lykta leitt í þinginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka