Íslendingar hafa á undanförnum áratugum byggt upp „afsakplega óskuldaravænt samfélag“, að mati Árna Páls Árnasonar félagsmálaráðherra, sem gagnrýnir að tilraunir til að styrkja stöðu skuldara skuli hafa verið „úthrópaðar“.
Davíð Stefánsson, varaþingmaður Vinstri grænna, bar stöðu skuldara upp í umræðum um störf þinsins á Alþingi í dag með þeim orðum að úrræði fyrir skuldara væru ekki í nógum farvegi.
Árni Páll tók undir málflutning Davíðs og sagði tilraunir til að bæta jafnvægið á milli lánveitenda og skuldara ranglega hafa verið úthrópaðar sem aðgerðir sem myndu undan lánakerfinu.
Ef útlánakerfið hefði verið heilbrigðara árið 2004 hefði útlánabólan aldrei orðið eins mikil og raun varð. Lánveitendur hafi þá ausið út lánsfé í trausti þess að þeir gætu „hundelt skuldara út fyrir gröf og dauða“.
Takmarka þurfi þriðja manns ábyrgðir og efla þá tilfinningu meðal lánveitenda að gæta að ábyrgum lánveitingum.
Davíð gerði í ræðu sinni „vanmætti skuldara gagnvart þeim flóknum fjármálakerfum sem nú ríkja í íslensku samfélagi“ að umtalsefni.
Ljóst sé að mikið skorti á fjármálalæsi. Með líku lagi sé hagsmunabarátta skuldara ekki í nógu föstum farvegi. Neytendastofa, sem væri hlutlaus aðili, vísaði einstökum málum til úrskurðarnefndar Alþingis, þar sem biðröðin hljóðaði upp á þrjá til fjóra mánuði.
Davíð setti skuldamálin í samhengi við kjarabaráttu. Vaxta- og lánakjör skiptu meira máli en launakjör sem Vinstri grænir berjist fyrir „með kjafti og klóm“.
Davíð þakkaði Árna Páli svar sitt en hann óskaði þess að hugmyndir um talsmenn skuldara rati inn í frumvörp um skuldsetta einstaklinga.