Séreignagreiðslur framlengdar?

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir til skoðunar að framlengja þann tíma sem fólk hefur til að fá greiðslur úr séreignasparnaði. Hann telur aðgerðina hafa verið vel heppnaða og að skoða þurfi hvort einstaklingar geti fengið greidda út hærri upphæð. 

„Þá er að lokum spurningin hvort ástæða sé til þess nú þegar að fara að huga að því að rýmka þessar reglur eða framlengja þær vegna þess að nú styttist í að þeir fyrstu komist á endastöð út níu mánaða útgreiðslutímann sem fyrstir sóttu um og mitt svar er það að það er einboðið að mínu mati að skoða það. Framkvæmdin hefur gengið vel og hefur gengið án verulegra vandamála að því er séð verður hjá vörsluaðilunum eða útgreiðsluaðilunum,“ sagði fjármálaráðherra.

„Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef frá emætti ríkisskattstjóra og eru miðaðar við talningu núna 15. október sl. þá höfðu alls 38.835 einstaklingar óskað eftir heimild til útgreiðslu séreignasparnaðar.

Og hversu hátt hlutfall er þetta af þeim sem hafa greitt inn í séreignasparnað á undanförnum árum. Ja. Því er til að svara að samkvæmt skattaframtölum þá hafa tæplega 155.00 einstaklingar greitt í séreignalífeyrissjóði á undanförnum árum þannig að þetta er all hátt hlutfall af þeim mikla fjölda sem er þó ótrúlega stór hluti þeirra sem á vinnumarkaði eru, ef miðað er við að hann telji 170 til 180.000 manns. Þannig það er sem sagt um 25% þeirra sem reikna má með að eigi inneign í séreignasparnaði sem hafa þegar ákveðið að nýta sér þessa heimild.“

Sagði Steingrímur heildarupphæðina um 24 milljarða króna. Reiknað hafi verið með að heildarútgreiðslurnar gætu numið frá 40 til 50 milljörðum króna miðað við umsóknartímabilið í heild.

Svaraði fyrirspurn

Steingrímur svaraði þannig fyrirspurn Steinunnar Valdísar um fjölda einstaklinga sem hefðu nýtt sér þetta úrræði, hversu hátt hlutfall einstaklinga sem eiga séreignasparnað hefðu nýtt sér það, hver heildarupphæð útgreiðslunnar væri og hvort heimild til útgreiðslu standi lengur en til 1. október 2010.

Steinunn Valdís var þannig fyrirspyrjandi í málinu en hún minnti á að lög um séreignasparnað hefðu aðeins verið í gildi í um áratug.

Sjálf hefði hún átt sæti í vinnuhópi sem settur var á eftir hrunið en meðal hugmynda hans var að einstaklingar gætu tímabundið tekið út séreignasparnað.

Málið hafi verið rætt á þinginu í kjölfarið og skiptar skoðanir verið um það. Ýmsir hefðu varað við því að ef farið yrði of geyst í þessar útgreiðslur gæti það haft alvarleg áhrif á lífeyrissjóðina. Sjóðirnir hafi ekki verið áfjáðir í þessa leið.

Með lögum sem tóku gildi 14. mars á þessu ári hafi útgreiðsla þessa sparnaðar verið heimiluð tímabundið fram til október 2010 að hámarksupphæð einni milljón króna.

Hér væri ekki um háar fjárhæðir að ræða sem gætu engu að síður gagnast vel til að lækka dýr lán, þar með talið yfirdráttarlán, „þegar kreppi að í heimilsbókhaldi einstaklinga“, svo þeir geti greitt niður óhagstæðar skuldir

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert