Von er á tilkynningu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í dag um hvenær málefni Íslands verða tekin til endurskoðunar hjá framkvæmdastjórn sjóðsins, samkvæmt upplýsingum mbl.is. Ekki er búist við því að hún berist fyrr en síðdegis. Fastlega er gert ráð fyrir að framkvæmdastjórnin muni taka ákvörðun um að greiða út annan hluta lánsins til Íslands, samtals 155 milljónir Bandaríkjadala, 19 milljarða króna.
Fyrsti hluti lánsins var 827 milljónir dala var greiddur út í nóvember á síðasta ári og afgangurinn átti að koma í átta jöfnum greiðslum, 155 milljónir dala hver. Fyrsta endurskoðunin og annar hluti lánsins hefur dregist umtalsvert en upprunalega var hún á dagskrá í febrúar á þessu ári. Dráttur í endurskipulagningu bankanna, Icesave deilan, Alþingiskosningar og breytingar á ríkisstjórn, tafir á framlagningu langtímaáætlunar í ríkisfjármálum o.fl. mál hafa valdið töfum. Með Icesave samningnum og samþykkt ríkisábyrgðar vegna hans á Alþingi eru öll mál í höfn fyrir endurskoðunina, samkvæmt því sem fram kom í Morgunkorni Íslandsbanka fyrr í vikunni.
Fyrirhugað er að nýta lán AGS til að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans. Til viðbótar við lán AGS koma lán frá hinum Norðurlöndunum og Póllandi. Lán þessara aðila eru háð samþykkt AGS á öðrum hluta láns síns til Íslands. Þannig hvíla þau lán einnig á lausn Icesave-deilunnar og munu þessi lönd væntanlega greiða út u.þ.b. 470 milljónir evra þegar endurskoðun AGS er í höfn.