Verða Kínverjar eða Spánverjar skipstjórar á íslenskum skipum?

Þráinn Bertelsson og Árni Johnsen á Alþingi.
Þráinn Bertelsson og Árni Johnsen á Alþingi. mbl.is/Ómar

Árni Johnsen, alþingismaður, sagði á Alþingi í dag að skipstjórnarmenntun væri í uppnámi á Íslandi. „Innan tíu ára má kannski reikna með að Kínverjar eða Spánverjar verði skipstjórar á íslenskum skipum. Það er ekki góð þróun," sagði hann.

Árni sagði þetta m.a. þegar hann hóf í dag umræðu utan dagskrár á Alþingi um stöðu landsbyggðarinnar, sem hann sagði nauðsynlegt að styrkja því það skapaði miklu sterkari grundvöll fyrir landið í heild. 

Árni sagði, að ríkisstjórnin hjakkaði á landsbyggðinni og gagnrýndi að verið væri að véla um að fækka sýslumönnum, skattstjórum og lögregluumdæmum. „Þetta er óvirðing við landsbyggðina, sem vinnur daga og nætur, fast og ákveðið að gjaldeyrisöflun fyrir þjóðina," sagði Árni. Hann bætti við að ríkisstjórnin hefði veist að orkunýtingu og dregið þar lappirnar endalaust líkt og í fleiri málum, sem tengdust Suðurnesjum, hvort það væri Helguvík, gagnaver, Keilir eða heilusjúkrahús.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði að Árni liti fram hjá því, að það varð banka- og efnahagshrun á Íslandi, sem kæmi við alla landsmenn. „Það þýðir ekki að ræða aðstæður okkar á Íslandi eins og ekkert hafi gerst hér," sagði Steingrímur og sagði sérstaklega ekki við hæfi að þingmenn Sjálfstæðisflokksins töluðu þannig.

Steingrímur sagði að óumflýjanlegar hagræðingaraðgerðir miðuðu að því að veita grunnþjónustu um allt land. Nefndi hann m.a. að afar fá rök væru fyrir því, að sama skipulag skuli eiga við í dag og áður varðandi skattumdæmi  þegar skattframtöl væru á netinu. Löngu tímabært væri að gera landið að einu skattumdæmi.

Þá sagði Steingrímur, að landsbyggðin hefði að mögu leyti komist betur frá fjármálakreppunni en höfuðborgarsvæðið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert