Samband ungra sjálfstæðismanna átelur í ályktun ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að steypa íslenskri þjóð í skuldaánauð með því að samþykkja, það sem getur ekki kallast annað en fyrirvaralaus ríkisábyrgð á Icesave samningunum.
Ungir sjálfstæðismenn krefjast þess að Alþingi standi í lappirnar og fallist ekki á ný lög um rangláta og fyrirvaralausa ríkisábyrgð. Vilji Bretar og Hollendingar fá úr því skorið hvort Íslendingum beri að greiða þessa skuld, geta þeir leitað til dómstóla," segir m.a. í ályktuninni.
Þar segir einnig, að það að hverfa frá þeim fyrirvörum sem settir voru við samningana kalli aðeins á að ungt fólk verði alla sína ævi að greiða fyrir afglöp ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.
Slík niðurstaða er ekki boðleg landi og þjóð. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur algjörlega mistekist að koma sjónarmiðum Íslendinga á framfæri á erlendum vettvangi – þrátt fyrir að hafa setið að völdum í tæpa níu mánuði og ítrekað verið bent á nauðsyn þess að halda uppi slíkri málsvörn. Minnimáttarkennd og undirlægjuháttur ríkisstjórnarinnar gagnvart erlendum aðilum í þessu máli er staðreynd."