Innlánstryggingasjóður hefur borgað um 100 milljónir á dag í vexti frá 22. apríl síðastliðnum, að sögn Péturs H. Blöndal, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem sakaði fjármálaráðherra um þekkingarleysi á málefnum Landsbankans í harðorðri ræðu fyrir stundu.
„Það er dapurlegt að verða var við það skilningsleysi sem hæstvirtir ráðherrar, utanríkisráðherra og fjármálaráðhera, hafa á stöðu Landsbankans.
Með lögum frá Alþingi var innistæðan fryst í krónum 22. apríl ... í krónum ... vextir og gengishagnaður eru eftirstæðar kröfur og ekki forgangskröfur. Það þýðir það að Landsbankinn sem á mikið af eignum í erlendri mynt hann hagnast og hagnast á gengismun og mun geta bráðum geta borgað 110% en innlánstryggingarsjóður, sem á þessa kröfu, hann á eign í krónutölu en hann skuldar í mynt.
Hann er að borga frá 22. apríl 40 milljarða meiri skuld og hann borgar á hverjum degi 100 milljónir í vexti. Það vex og vex hjá innlánstryggingasjóði og hver skyldi borga það: ríkissjóður. Og ég krefst þess að ráðherrar sem standa í þessu máli skilji þessa hluti,“ sagði Pétur og barði í ræðupúltið.