Hæstiréttur hefur dæmt karlmann í 5 ára fangelsi fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn dóttur sinni sem var 2 og 3 ára þegar það gerðist. Héraðsdómur Reykjaness hafði áður dæmt manninn í 2 ára fangelsi. Hæstiréttur dæmdi manninn til að greiða dóttur sinni 1,5 milljónir króna.
Maðurinn, sem hefur setið í gæsluvarðhaldi í tæpt ár, var ákærður fyrir að hafa í mörg skipti haft samræði og önnur kynferðismök en samræði við stúlkuna. Hæstiréttur segir, að það sé hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hafi haft önnur kynferðismök við telpuna en samræði, en læknir sá er skoðaði hana, taldi útilokað að um samræði hefði verið að ræða. Því var maðurinn, þrátt fyrir neitun hans, fundinn sekur um að hafa haft önnur kynferðismök en samræði við dóttur sína á tímabili frá september 2007 til nóvember 2008.
Við ákvörðun refsingar var litið til þess að kynferðisbrot mannsins hefðu beinst að barnungri dóttur hans, sem hann einn hefði haft forsjá með, og hefðu staðið í rúmt ár. Þau hefðu verið ítrekuð, alvarleg og til þess fallin að hafa mikil og varanleg áhrif á telpuna.
Skjólstæðingar félagsmálayfirvalda
Bæði maðurinn og barnsmóðir hans voru skjólstæðingar félagsmálayfirvalda frá því að dóttirin fæddist í maí 2005. Þau eru bæði öryrkjar og stunduðu ekki vinnu. Strax eftir fæðingu barnsins var talin ástæða til að fylgjast með hvernig því vegnaði sökum vandamála foreldranna.
Forsjárhæfni foreldranna var metin í júní 2005, skömmu eftir að dóttirin kom í heiminn. Meginniðurstöður sálfræðings voru þær að hann taldi stefnuleysi, geðsjúkdóma og ýmsa andlega bresti einkenna líf þeirra og hugsun þeirra væri of óskýr og dómgreind slök, ekki síst í tengslum við framtíð barnsins og uppeldi þess. Taldi sálfræðingurinn nauðsyn á miklum og langvarandi stuðningi við fjölskylduna.
Barnaverndarnefnd höfðaði mál í febrúar 2007 á hendur foreldrunum og var gerð sú krafa að þau yrðu svipt forsjá. Krafan náði ekki fram að ganga.
Í apríl 2008 hóf stúlkan að sækja leikskóla. Frá upphafi skólagöngu sýndi hún mikið óöryggi og vanlíðan. Í október sama ár fór félagsráðgjafi frá félagsþjónustu í leikskólann og ræddi við stúlkuna og vaknaði þá grunur um að hún hefði verið beitt kynferðislegu ofbeldi. Þegar leið á rannsóknina beindist grunur því æ sterkar að föður stúlkunnar og að lokum að honum einum. Hann hefur hins vegar alltaf neitað sök.