Lyfjakostnaður sjúkratrygginga vegna sýruhemjandi (PPI)- og blóðfitulækkandi lyfja hefur lækkað um 470 milljónir króna frá mars til ágúst 2009, að því er fram kemur í vefriti Sjúkratrygginga Íslands. Greiðsluþátttaka sjúkratrygginga breyttist 1. mars s.l. þannig að sjúkratryggingar taka þátt í ódýrustu lyfjunum í þessum tveimur lyfjaflokkum. Þau lyf sem víkja ekki í verði meira en 20% frá ódýrasta lyfinu eru með greiðsluþátttöku.
Mörkin voru víkkuð úr 20% í 50% fyrir blóðfitulækkandi lyfin 1. okt. s.l. Ef hagkvæmari lyfin reynast ófullnægjandi eða aukaverkanir koma fram við notkun þeirra getur læknir sótt um lyfjaskírteini (greiðsluþátttöku) fyrir lyfjum sem ekki eru með greiðsluþátttöku. Lyfjakostnaður hefur lækkað um 295 milljónir kr. vegna PPI-lyfja og 175 milljónir kr. vegna blóðfitulækkandi lyfja þessa sex mánuði, frá mars-ágúst.
Áætlað er að lyfjakostnaður sjúkratrygginga lækki um 780 milljónir kr. á árinu 2009 vegna breytinganna á greiðsluþátttöku PPI- og blóðfitulækkandi lyfja þann 1. mars sl.