Flosi Ólafsson töluvert slasaður eftir umferðarslys

Flosi Ólafsson er töluvert slasaður á Landspítalanum.
Flosi Ólafsson er töluvert slasaður á Landspítalanum. Sverrir Vilhelmsson

Flosi Ólafsson, leikari, rithöfundur, þýðandi og lífskúnstner með meiru lenti í alvarlegu bílslysi í grennd við Borgarfjarðarbrú síðdegis í gær. Hann var fluttur á gjörgæslu Landsspítalans, en til stendur að hann verði fluttur á almenna deild síðar í dag.

Að sögn Ólafs, sonar Flosa, voru tildrög slyssins þau að Flosi var á leið úr Reykjavík til heimilis síns og Lilju Margeirsdóttur, eiginkonu sinnar og móður Ólafs að Bergi í Reykholtsdal, þegar stór trukkur tók fram úr Flosa til móts við mótelið Venus, sem er nokkru sunnan við Borgarfjarðarbrúnna.  Við þennan framúrakstur missti Flosi stjórn á bíl sínum sem fór þrjár veltur áður en hann stöðvaðist.

„Pabbi er töluvert slasaður, en ekki í lífshættu, sem betur fer. En þrátt fyrir þetta alvarlega slys, virðist þó hafa farið betur en sýndist við fyrstu sýn, því aðkoman á slysstað er sögð hafa verið hrikaleg,“ sagði Ólafur. Ólafur segir að samkvæmt læknum á Landspítalanum sé um það rætt að hann fari af gjörgæslu síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka