Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, segir í grein í Morgunblaðinu í dag, að ekki sé hægt að túlka tafir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á lánagreiðslum til Íslendinga öðruvísi en þannig að hann hafi einhliða sagt upp samkomulaginu við Íslendinga.
„Íslensk stjórnvöld verða því að óska eftir að nýtt samkomulag verði gert sem taki mið að aðstæðum ári eftir að bankakerfið hrundi," segir Lilja.
Hún segir að efnahagsáætlun AGS þarfnast róttækrar breytingar þar sem hún byggðist á mun minni skuldsetningu þjóðarbúsins en nú hefur komið í ljós. Auk þess hafi sjóðurinn ekki staðið við sinn hluta samkomulagsins sem gert var fyrir ári. Greiðslur sem koma áttu með reglulegu millibili á þessu ári hafa ekki borist og engar formlegar skýringar hafa fengist á töfinni. Íslendingar hafi hins vegar staðið við sinn hluta samkomulagsins.
„Semja þarf um verulega vaxtalækkun, að lánum sjóðsins verði breytt í lánalínur sem aðeins verða notaðar í neyð og að niðurskurður verði mildaður til að tryggja fulla atvinnu. Jafnframt þarf AGS að aðstoða íslensk stjórnvöld við að endursemja við erlenda lánardrottna um lægri vexti og afskriftir til að forða ríkissjóði og þjóðarbúinu frá greiðsluþroti strax á næsta ári," segir Lilja í greininni.