Lögreglan kölluð til vegna hnífabardaga í Kópavogi. Brotist var inn í bíl og reynt að brjótast inn í íbúð. Einum bíl var stolið og þyrla Landhelgisgæslunnar fór í eitt útkall vegna slyss úti á sjó í kvöld.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út um áttaleytið í kvöld vegna hnífabardaga í Kópavogi. Sá sem beitti hnífnum var mjög ölvaður en hlaut fórnarlambið einungis minniháttar skeinur. Voru það viðstaddir sem létu lögreglu vita. Hnífamaðurinn er nú í haldi lögreglu.
Brotist var inn í bíl um hálf fjögur í dag og var staðsetningartæki sem var í bílnum fjarlægt. Þá var reynt að brjótast inn við Lautarsmára í Kópavogi og fjarlægði þjófurinn heilan glugga úr húsinu. Húseigandi var hins vegar heima og varð var við þjófinn sem lagði á flótta er hann varð svo aftur var við húseigandann.
Lá honum svo mikið á að annar skórinn varð eftir og hefur lögreglan hann nú í sinni vörslu.
Bláum Mitsubishi Pajero jeppa var einnig stolið um sex leytið í dag af Stórhöfða. Enn er leitað að bílnum.
Þá var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út í kvöld vegna sjómanns sem hafði fótbrotnað. Var báturinn úti fyrir Snæfellsjökli.