Efnahagsástandið hefur aldrei verið svartara, sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, í setningarræðu á ársfundi ASÍ í morgun. Gylfi lagði áherslu á samstöðu verkalýðshreyfingarinnar. Hann sagði að kjarasamningarnir væru nú í þriðja sinn á árinu komnir í uppnám.
Hann sagði að verkalýðshreyfingin gengi út frá því að staðið yrði við umsamdar launahækkanir, að öðrum kosti mætti búast við stríði á vinnumarkaði.
Gylfi fjallaði um viðræðurnar um stöðugleikasáttmála og sagði að menn hafi oft staðið frammi fyrir þeirri hættu að upp úr slitnaði og atvinnurekendum segðu kjarasamningum upp. Með samkomulaginu í júní hafi menn treyst því að grunnur væri lagður að bættum lífskjörum til frambúðar. Menn hafi verið bjartsýnir á þeim tíma að tækist að hefja uppbyggingarstarfið en þá hófst deilan um Icesave og ekkert var gert. Í lok ágúst kom í ljós að engin vinna hafði farið fram á vegum stjórnvalda s.s. við undirbúning framkvæmda. ,,Ekkert hafði verið gert, engar ákvarðanir verið teknar og um tíma virtist ríkisstjórnin hafa misst meirihluta sinn," sagði hann.
Gylfi benti á að með ákvörðun umhverfisráðherra um suðvesturlínu seinkaði undirbúningi framkvæmda. Þetta hafi verið í andstöðu við samkomulagið í sumar um stöðugleikasáttmálann.
„Tíminn er orðinn afar naumur Það eru talsverðar líkur á að upp úr slitni“, sagði hann.
Ræða Gylfa Arnbjörnssonar á ársfundi ASÍ