Ekki hafa komið fram skýr merki um að líðan barna á Íslandi sé breytast til verri vegar. Færri börn í 5.-7. bekk segja að sér liði illa í ár en fyrir þremur árum. Þetta kemur fram í könnun sem Rannsóknir og greining gerðu í febrúar á þessu ári.
„Almennt talað eru þetta góðar niðurstöðu og vísbending um að við séum að halda vel utan um börnin okkar," segir Margrét Lilja Guðmundsdóttir, aðjúnkt við kennslufræði- og lýðheilsudeild HR, um niðurstöður tveggja skýrslna um líðan barna á árinu 2009. Margrét segir mikilvægt að halda áfram rannsóknum á líðan barna og unglinga.
Í könnuninni var spurt um fjárhagslega stöðu. Unglingar eru spurðir hvort þau meti það svo að foreldrar eigi ekki fyrir brýnustu nauðsynjum. 96% svara spurningunni neitandi, en 4% játandi. Svipuð svör komu þegar spurt var hvort foreldrar hefðu efni á þeim tómstundum sem nemandinn vildi helst stunda.