Mikill hiti í þingsalnum

Steingrímur J. Þingmenn.
Steingrímur J. Þingmenn. mbl.is/Eggert

„Krakkar mínir eigum við ekki bara að vera róleg,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra er hann vék augnablik frá andsvari sínu um Icesave og beindi orðum sínum að þingmönnum sem gripu fram í fyrir honum.

Siv Friðleifsdóttir, sem situr í stól þingforseta, ítrekaði í kjölfarið þá kröfu sína að þingmenn og ráðherrar gæti hófs í orðavali.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa farið hörðum orðum um samkomulagið og tveir þeirra slegið í þingpúltið máli sínu til áherslu. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur harðlega gagnrýnt afstöðu Steingríms í málinu og sakað hann um að gæta hagsmuna flokks síns, ekki hagsmuna þjóðarinnar. Hér væru á ferð „pólitískir afarkostir“.

Hollendingar og Bretar hefðu fengið allt sem þeir vildu í þessari deilu. Kröfur þeirra væru „komnar í hús“. Íslenskum stjórnvöldum hefði mistekist að halda uppi hagsmunum Íslands erlendis. Hann sé óviss um að nokkur önnur ríkisstjórn myndi hafa látið undir höfuð leggjast að gagnrýna Alþjóðagjaldeyrissjóðinn opinberlega.

Ef gerðardómur eða annar dómur myndi komast að þeirri niðurstöðu að Íslandi bæri að greiða fyrir Icesave myndi hann sjálfur styðja að þjóðin greiddi „hverja evru“ til baka.

Hægt að breyta fyrirvörunum?

Meðal þingmanna sem hafa borið spurningar undir fjármálaráherra um Icesave-samkomulagið er Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sem spurði hvort ekki væri svigrúm til að breyta fyrirvörunum í því.

Svaraði Steingrímur því þá til að lagafrumvarpið væri mjög einfalt og vitnaði til greinarinnar um ríkisábyrgð. Hin greinin varðaði lagalega fyrirvara sem þingmenn hefðu  væntanlega ekki áhuga á að „missa fyrir borð“. Þeir þingmenn sem vilji hafna niðurstöðunni í heild sinni geti greitt atkvæði gegn frumvarpinu.

Landsbankinn hefði átt að vera í ríkiseigu

Fyrr í umræðunum sagði Steingrímur reynsluna af Icesave-reikningnum sýna fram á að málflutningur stjórnarandstöðunnar þegar bankarnir voru einkavæddir hefði verið réttmætur. Landsbankinn hefði átt að vera í ríkiseigu. Þá væri staðan betri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert