Mótmæla þarf framgöngu sjóðsins

Illugi Gunnarsson.
Illugi Gunnarsson.

Það er hneisa að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn skuli hafa tengt saman með „óvífnum hætti“ lánsfjáráætlun sína og hagsmuni Breta og Hollendinga í Icesave-málinu, að sögn Illuga Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Hann gagnrýnir að ríkið skuli ekki hafa formlega mótmælt framgöngu sjóðsins.   

Illugi beindi orðum sínum að utanríkisráðherra í fyrirspurnartíma á Alþingi en að hans sögn hefur sjóðurinn gerst „innheimtumaður“ fyrir þessar þjóðir. Því spurði hann Össur hvort Ísland hefði með formlegum skriflegum hætti mótmælt þessu háttalega sjóðsins? „Getur utanríkisráðherra tekið undir þau sjónarmið í efnahagstillögum sjálfstæðismanna að tilefni sé til að endurskoða samvinnuna við sjóðinn,“ spurði Illugi.

Því næst benti hann á að stjórnarliðar hefðu tekið undir þessa skoðun, þar með talið Lilja Mósesdóttir. Nota eigi tækifærið til að koma þessu á framfæri þegar sjóðurinn hittist, að líkindum í næstu viku.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra kvaðst ekki vita hvort framgöngu sjóðsins hefði verið formlega mótmælt. Sjálfur hafi hann mótmælt á fundi sínum með Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóra sjóðsins.

Hann beindi næst orðum sínum til Illuga sem þyrfti ekki að vera undrandi á að þessum málum skuli hafa verið hnýtt saman. Það hafi sjálfstæðismenn gert þegar þeir höfðu embætti forsætisráðherra, seðlabankastjóra og fjármálaráðherra á sínum snærum, nánar tiltekið 15. nóvember.

Breyting við ritstjóraskipti

Þá sakaði hann sjálfstæðismenn um óskýra stefnu í Icesave-málinu og að stefna þeirra breyttist í hvert sinn sem skipt væri um ritstjóra í Hádegismóum en þar er Morgunblaðið til húsa.

Illugi svaraði því þá til að gilti lítið þótt menn töluðu saman undir fjögur augu. Koma þurfi fram á opinberum vettvangi að Íslendingar sætti sig ekki við framgöngu sjóðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert