Stjórnvöld á undanhaldi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins. mbl.is

„Enn vindur Icesave-hneykslið upp á sig. Hvað eftir annað hefur ríkisstjórnin komið fram með staðhæfingar sem að hún hefur síðan hrakist til baka með. Og nú eina ferðina enn þá er verið að færa þetta niður á lægra plan,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, í umræðu um Icesave fyrir stundu. 

„Það urðu margir til að benda á það þegar gengið var frá Icesave-frumvarpinu og það samþykkt illu heilli hér um daginn að á því væru ýmsir ágallar og meðal annars sá að líta mætti á þetta sem samningstilboð frá Alþingi miklu frekar heldur en einhverja endanlega niðurstöðu. Ríkisstjórnin tók slíkum fullyrðingum ekki vel. Taldi þær fjarstæðukenndar,“ sagði Sigmundur og vék síðan að meintri erlendri íhlutun í lagasetningu.

„En nú ber svo við að utanaðkomandi aðilar, erlendir aðilar, eiga að hafa eitthvað um það að segja hvernig lög sem samþykkt hafa verið og eru frágengin eiga að líta út. Þetta er algjör nýjung á lagasetningu á Íslandi og hefði ekki verið hægt að finna verra mál til þess að innleiða þessa nýjung.“

Að mati Sigmundar hafa Bretar og Hollendingar kúgað Íslendinga í málinu frá upphafi og beitt í því „ótrúlegri hörku og ósvífni“.

Allt frá upphafi hefði þessi ríkisstjórn varið málstað Breta og Hollendinga sem engin önnur ríkisstjórn í sögu Íslands hefði gert.

Á meðan reynt hefði verið að reyna ná samningum við Breta og Hollendinga hefði skýrslu verið dreift þar sem því hafi verið haldið fram að Ísland ætti engan málstað.

Gagnrýnir samninganefndina 

Þá fordæmdi Sigmundur að send skyldi út samninganefnd með hinum sömu mönnum og höfðu samið upprunalega Icesave-samninginn.

„Hvaða ríkisstjórn annarri hefði dottið slíkt í hug að senda aftur út sömu mennina og voru búnir að skuldbinda sjálfa sig áður með hinum agalegu Icesave-samningum?“ spurði Sigmundur.

Sigmundur dró upp dökka mynd af framhaldinu ef samkomulagið yrði að veruleika og sagði að einungis vextirnir, hverjar sem endurheimturnar yrðu hjá Landsbankanum, myndu nema 100 milljónum króna á dag og alltaf lenda á Íslendingum. Það sé töluvert meira fé en nemi þeim niðurskurði sem ríkisstjórnin hafi ekki treyst sér til að fara í.

Með hliðsjón af því að þessar 100 milljónir séu í erlendri mynt verði margföldunaráhrif þannig að upphæðin nemi frá 200 til 300 milljónum króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert