Svör Íslands afhent í Brussel

Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra, t.v og Michael Leigh, yfirmaður stækkunarskrifstofu …
Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra, t.v og Michael Leigh, yfirmaður stækkunarskrifstofu Evrópusambandsins Utanríkisráðuneytið

Íslensk stjórnvöld skiluðu í dag inn svörum við spurningalista framkvæmdastjórnar  Evrópusambandsins sem er hluti af samræmdu umsóknarferli að ESB.

Svörin telja 2600 blaðsíður auk fylgiskjala og er blaðafjöldi samtals 8870 síður. Unnu öll ráðuneytin að svörunum, auk fjölda undirstofnana.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mun á grundvelli svaranna gefa leiðtogaráði ESB álit sitt á því hvort Ísland uppfylli viðmið til að verða formlegt umsóknarríki að Evrópusambandinu.

Spurningalistinn skiptist í almennan hluta sem skiptist svo aftur í tvo kafla, annars vegar um hagkerfið og efnahagsmál og hins vegar um stjórnkerfið almennt, lýðræði og mannréttindi.

Að öðru leyti skiptist listinn í þrjátíu og þrjá kafla. Fjallar fyrsti kaflinn um frjálst vöruflæði, næsti um frjálsa för vinnuafls og svo framvegis.
Segir í tilkynningunni að vinna við svörin hafi gengið hratt og vel fyrir sig en nú eru liðnar sex vikur frá því að Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB, afhenti íslenskum stjórnvöldum spurningalistann, eða þann 8. september sl.

Flýtti það fyrir að oft var hægt að nýta svör sem stjórnvöld höfðu þegar unnið, til dæmis í tengslum við rekstur EES samningsins og í skýrslum til OECD, Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og Sameinuðu Þjóðanna.

Sérfræðingarnir sem unnu að svörunum voru bæði innan stjórnsýslunnar og utan hennar og var til að mynda náið samráð haft við starfshóp utanríkismálanefndar um Evrópumál. Þá fóru bæði samtök og hagsmunaaðilar yfir svörin, svo sem  Bændasamtökin, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Samband íslenskra sveitarfélaga, aðila vinnumarkaðarins, Neytendasamtökin, talsmann neytenda og sérfræðinga úr háskólasamfélaginu.

Framkvæmdastjórnin mun hefja byrja að fara yfir svörin og verður áframhaldandi samráð og samskipti við fulltrúa hennar eins og þörf krefur á meðan að á vinnslu álits framkvæmdastjórnarinnar stendur.

Svörin í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert