Þung orð falla um Icesave

Rætt verður um Icesave-málið á Alþingi í dag.
Rætt verður um Icesave-málið á Alþingi í dag.

Mjög hitnaði í þingsal Alþing­is þegar Stein­grím­ur J. Sig­fús­son fjár­málaráðherra mælti fyr­ir nýju Ices­a­ve-frum­varpi. Stein­grím­ur gagn­rýndi m.a. fyrri stjórn­völd, Seðlabank­ann og Fjár­mála­eft­ir­litið harðlega en Bjarni Bene­dikts­son, formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, sagði að sér væri full­kom­lega mis­boðið og ræða Stein­gríms væri „ein sam­felld súpa af rangtúlk­un­um á sögu máls­ins“.

„Það færi bet­ur á því ef hæst­virt­ur fjár­málaráðherra segði við okk­ur að við eig­um eng­an ann­an val­kost,“ sagði Bjarni. „Að við þurf­um að sætta okk­ur við fjár­kúg­un og mis­beit­ingu,“ sagði Bjarni, sem rifjaði upp að fjár­málaráðherra hafi áður kallað svo­nefnd sam­eig­in­leg viðmið í sam­komu­lag­inu ógild­an­leg­an nauðasamn­ing.  Nú haldi hann því fram að fyrri stjórn­völd hafi skuld­bundið Íslend­inga til að gera það sem hon­um var falið að ganga frá.

„Ef það er ein­hver einn flokk­ur sem á þetta Ices­a­ve-klúður skuld­laust í húð og hár þá er það Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn,“ svaraði Stein­grím­ur í svari við andsvari Bjarna og minnti á að dóm­stóla­leiðin gæti leitt til verri niður­stöðu í mál­inu.

Hösk­uld­ur Þór Þór­halls­son, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, sagði ræðu fjár­málaráðherra fela í sér full­komna upp­gjöf. Lít­il­mót­legt væri af Stein­grími að þvo hend­ur sín­ar af ábyrgð af mál­inu. Spurði hann m.a. Stein­grím hver her­kostnaður­inn af dóm­stóla­leiðinni í Ices­a­ve-mál­inu yrði.

Hefði farið dóm­stóla­leiðina 

Stein­grím­ur svaraði því til að hann hefði kosið dóm­stóla­leiðina ef hún væri í boði og vitnaði því næst til sam­komu­lags­ins og þeirra úrræða sem það fæli í sér.

Guðlaug­ur Þór Þórðar­son, þingmaður Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn, sakaði Stein­grím um að reyna að slá „póli­tísk­ar keil­ur“ með því að minn­ast ekki á Brus­sel-viðmiðin.

Hann gekk lengra í öðru andsvari sínu og sakaði ráðherr­ann um ósann­sögli og um upp­gjöf gagn­vart Hol­lend­ing­um og Bret­um. Tök Stein­gríms í Ices­a­ve-mál­inu sýndu að hann vissi ekki hvað hann var að gera.

Ótrú­leg fram­ganga Fjár­mála­eft­ir­lits­ins

Stein­grím­ur sagði m.a. að í fram­söguræðu sinni, að hann hefði fengið það hlut­skipti að reyna að greiða úr þeirri herfi­legu stöðu sem Ices­a­ve-málið var komið í.  Sagði Stein­grím­ur m.a. að Seðlabank­inn hefði getað lagt mikið að mörk­um hefði hann hækkað bindiskyldu ís­lenskra banka í stað þess að lækka hana þegar of­vöxt­ur­inn ís­lenska banka­kerf­is­ins keyrði úr hófi fram.

Þá þyrfti Fjár­mála­eft­ir­litið að líta í eig­in barm sem stofn­un. „Sam­skipti þess, við hol­lensk yf­ir­völd, svo seint sem í sept­em­ber, eru með endem­um, í ljósi þess sem síðar hef­ur komið fram," sagði Stein­grím­ur og bætti við að ís­lensk­um stjórn­völd­um og ís­lensk­um banka­mönn­um hefði þegar þarna var komið hafi verið löngu ljóst í hvað stefndi. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert