Veðja á réttan hest?

Grétar Þorsteinsson og Árni Páll Árnason á ársfundi ASÍ í …
Grétar Þorsteinsson og Árni Páll Árnason á ársfundi ASÍ í dag.

„Ef sjávarútvegur og stóriðja geta ekki þolað hóflega innköllun veiðiheimilda og hóflega auðlindaskatta, er spurning hvort við séum yfir höfuð að veðja á réttan hest.  Verðum við þá ekki að leita annara kosta um framtíðaratvinnuuppbyggingu?“ sagði Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra í ávarpi á ársfundi ASÍ.

„Við viljum semja við erlend fyrirtæki en ekki upp á hvaða býti sem er. Við erum til dæmis ekki tilbúin að semja um óendanlega skattaafslætti. Atvinnulíf sem ekki getur lagt af mörkum til samfélagsins er ekki upp á marga fiska. Við getum tekið dæmi af sjávarútveginum sem hefur notið ríkulega ávaxtanna af stórfelldri gengisfellingu, en kveinar samt viðstöðulítið undan hugmyndum um hóflega innköllun aflaheimilda. Afkomubati sjávarútvegsins á síðasta ári hleypur á tugum milljarða. Þessi afkomubati er fenginn með fórnum ykkar og ykkar félagsmanna. Gengisfellingin færði peninga frá íslensku launafólki til sægreifa og stóriðju. Grátkór og kveinstafir útgerðar og álfyrirtækja er háværari og ágengari á sama tíma og launafólk hefur stillt kröfum í hóf og sýnt mikið þolgæði. Það er íhugunarefni," sagði Árni Páll. 

Hann sagði einnig að erfitt sé að ganga harðar fram í niðurskurði hjá ríkinu en ákveðið hefur verið. Nú reyni á aðra. Árni Páll sagði að óhófsveislan hafi ekki verið höfuðástæða hrunsins heldur oftrú á markaðshagkerfið.

Ráðherra sagði fimm meginverkefni blasa við. Endurreisa þurfi fjármálakerfið. Náðst hafi mikilvægir áfangar við endurreisn bankanna á umliðnum vikum. Takast þurfi á við vandann í ríkisfjármálum með erfiðum aðgerðum. Koma þurfi gjaldeyrisviðskiptum í eðlilegt horf og leysa skuldavanda heimilanna og sagði hann að frumvarpið sem hann lagði fyrir þingið verði vonandi að lögum fyrir vikulok.  Loks þurfi að leggja grunn að hagvexti.

Hann fjallaði um ákvarðanir um byggingu hjúkrunarheimila sem kynntar voru í seinustu viku. Sagðist hann vonast til að það verkefni færi í gang innan fárra vikna.

Árni Páll svaraði gagnrýni á áform um auðlindaskatta og innköllun aflaheimilda. Sagði að virða þurfi gerða samninga og stjórnvöld vildu vissulega semja við erlend fyrirtæki en ekki upp á hvað sem er. Þá sagði hann billegt að ætla að kenna ákvörðun umhverfisráðherra um suðvesturlínu um tafir á verkefninu í Helguvík. 

Ræða Árna Páls

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka