Vestfjarðavegur ekki um Teigsskóg

Leið B liggur meðal annars gegnum Teigsskóg.
Leið B liggur meðal annars gegnum Teigsskóg.

Hæstiréttur hefur fallist á kröfur landeigenda, Náttúruverndarsamtaka Íslands og Fuglaverndarfélags Íslands um að felldur verði úr gildi úrskurður umhverfisráðherra frá því í janúar 2007, sem féllst á svonefnda leið B í öðrum áfanga Vestfjarðavegar um Teigsskóg frá Bjarkarlundi til Eyrar í Reykhólahreppi. 

Nokkrir landeigendur á svæðinu, Náttúruverndarsamtök Íslands og Fuglaverndarfélag Íslands höfðuðu málið á hendur Vegagerðinni og kröfðust ógildingar. Vegagerðin skaut málinu til Hæstaréttar sl. desember. 

Skipulagsstofnun lagðist árið 2006 gegn því, að Vestfjarðavegur yrði lagður samkvæmt tillögu B á leiðinni frá Bjarkalundi til Eyrar. Nýja veginum er ætlað að bæta samgöngur annars vegar innar Reykhólahrepps og hins vegar frá Hringvegi til og frá V-Barðastrandasýslu og norðanverða Vestfirði.

Jónína Bjartmarz, þáverandi umhverfisráðherra, felldi hins vegar úrskurð Skipulagsstofnunar úr gildi og féllst á tillögu Vegagerðarinnar um að fara með veginn um Teigsskóg með tilteknum skilyrðum. Landeigendur og náttúruverndarfélög töldu að slík vegagerð myndi hafa í för með gríðarleg óafturkræf umhverfisspjöll í nær ósnortnu umhverfi og höfðuðu því mál til að fá úrskurð ráðherra ógildan.

Ráðherra taldi m.a. í úrskurði sínum, að umhverfisáhrif vegarins væru ekki umtalsverð þegar tekið væri tillit til mótvægisaðgerða og umferðaröryggis nýja vegarins. Hæstiréttur tók hins vegar undir með landeigendum og náttúruverndarsamtökum um að væri tekið tillit til umferðaröryggis nýja vegarins væri því tekið tillit til þáttar sem í raun væri ávinningur af framkvæmdinni en umhverfisáhrifin yrðu áfram óbreytt.

Leið B, sem var valkostur Vegagerðarinnar, er rúmir 15 km á lengd og liggur frá Þórisstöðum í Þorskafirði, út Þorskafjörð vestanverðan, um Hallsteinsnes, þvert yfir utanverðan Djúpafjörð vestur á Grónes (Gróunes) og þaðan þvert yfir utanverðan Gufufjörð. Vestan Gufufjarðar liggi vegurinn frá Melanesi og vestur fyrir Kraká.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka